Skagfirðingabók - 01.01.1993, Blaðsíða 127
„AÐ HAFA GÁT Á EFNAHAG SÍNUM''
nemendur, sem þess óska, eiga að fá tilsögn í ensku.40 Elín vildi
hafa skólann sem fjölbreyttastan, þannig að nemendur gætu
valið sem mest um námsgreinar eftir áhuga og námsgetu.
Elín var forstöðukona fyrir Blönduósskólanum til vors 1915,
en fluttist þá til Reykjavíkur. Hún hafði þá verið forstöðukona
kvennaskólans í 18 ár, á fjórum tímabilum. Elín var komin fast
að sextugu og heilsan farin að bila. Hún hafði reyndar oft átt
við vanheilsu að stríða, en var ósýnt um að hlífa sér, og vinnu-
dagur hennar var oft langur. Hún virðist hafa verið þeirrar
gerðar að kvarta ekki og bera allt með stillingu, hvort sem um
ástvinamissi eða heilsuleysi var að ræða.
Elín var ákafleg trygglynd manneskja og vinföst. I bréfi,
sem hún skrifar Sigríði á gamlársdag 1918, ræðir hún vinátt-
una: „Þá er nú þetta ár á enda og þakka jeg þjer fyrir það og öll
önnur liðin ár, síðan við fyrst bundumst vináttu, sem eru nú
orðnir margir tugir ára og þó brjefaskriptum og samfundum
fækki, þá er vináttan í hjartanu söm og jöfn.“ Þegar þetta er
ritað þá höfðu þær skrifast á í fjörutíu ár. Eins og verða vill eru
eyður í bréfin af og til, en einlægnin er alltaf sú sama. Það vek-
ur athygli við lestur þessara bréfa, að Elín leggur jafnan gott
til mála og liggur gott orð til annarra. Hún virðist hafa verið
ákaflega umtalsfróm manneskja. Hún sigldi þó ekki alltaf slétt-
an sjó, og stundum gustaði af henni, en slíkt hlýtur að fylgja
brautryðjendum. Það ber þó aldrei á beiskju eða dómhörku í
garð annarra. Hún talar hins vegar oft um hvað hún sé þakklát
fyrir það sem hún hefur.
Uppeldi barna á nítjándu öldinni var auðvitað misjafnt eins
og gengur og gerist í dag, þau börn sem fá gott uppeldi í vega-
nesti eru öguð, ekki þrúguð, þau læra að taka tillit til skoðana
annarra og sýna hæversku í orðum og framkomu án þess að
flíka um of tilfinningum sínum. Elín var afskaplega öguð
manneskja og stillti orðum sínum í hóf, þótt hún fylgdi skoð-
40 Kvennaskóli liiinvetninga 1879-1939, bls. 91.
125