Skagfirðingabók - 01.01.1993, Blaðsíða 145
FLÓTTIJÓNS PÁLMA JÓNSSONAR
hugans. Sá flótti, sem hann ræðir um í þessu bréfi, er því ekki
flótti á laun, heldur flótti frá því að helga Islandi allt, orku
sína og hugsjónir. En það var honum ljóst að frá þessu varð
hann að hverfa, ef hann leitaði annarra landa. Þar var reynsla
vesturfaranna nærtækt dæmi, þrátt fyrir heimþrána.
Þó að Jón sæti í gæzluvarðhaldi þar á Sauðárkróki, mun
hann hafa farið allmikið sinna ferða um kauptúnið, jafnvel ná-
grennið. Flestar eða allar munu þær hafa verið farnar með fullu
samþykki sýslumanns og ábyrgðarmanna. Hann mun og hafa
stundað iðn sína af fullri kostgæfni. Þegar dró að jólum, fór
hann þess á leit að fá að dvelja yfir þau meðal vina sinna utan
kauptúnsins. Neitaði sýslumaður því. Er mælt, að þá hafi Jón
látið þau orð falla, að trauðla mundi það hús til á Sauðárkróki,
er héldi sér nauðugum. Tók Magnús þessu léttilega, og urðu
engin eftirköst af þessu gamni. Víst er og, að Jón sýndi í engu
á sér fararsnið og var hinn ljúfasti í allri umgengni, svo sem
venja hans var. Milli hans og sýslumanns var vinátta áður en
þetta slys henti. Telja kunnugir að Magnús hafi í fáu breytt
háttum sínum í garð Jóns í daglegum skiptum, enda var
Magnús Guðmundsson þekktur að ljúfmennsku og tiginbor-
inni hæversku.
Þegar þessi saga gerðist, bjuggu á Mánaskál á Laxárdal
fremri hjónin Anna Guðmundsdóttir og Hjálmar Þorsteinsson.
Hann hefur síðar orðið þjóðkunnur undir heitinu Hjálmar á
Hofi [á Kjalarnesi]. Þeir Jón Pálmi og Hjálmar voru mjög sam-
rýmdir og skammt á milli um aldur, Hjálmar fæddur 1886, en
Jón 1888, ólust upp að drjúgum hluta í sömu sveitinni, báðir
gáfaðir, hrifnæmir, glaðlyndir og laglega hagmæltir, ágætlega
íþróttum búnir og fjöhæfir í þeim greinum eftir því sem þá
þekktist. Kunnastir voru þeir fyrir glímur, og mun lítið hafa
borið á milli um frækni þeirra, enda líkir á vöxt. Munu þeir
furðu oft hafa slegið brýnur sínar saman á unglingsárum og
ekki alltaf talið eftir sporin, svo að fundum gæti borið saman.
Nokkuð mun þó hafa dregið sundur um frækni þeirra, meðan
143