Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Side 6
5
MERKInGARHEIMAR ÍRonÍUnnAR
heppna, sem á sinn hátt birtir þverstæðuna um menningarlega sérstöðu
og framfarir, tvísæja stöðu Íslands gagnvart umheiminum, þar sem búin er
til saga um menningarlega útrás Íslendingsins með líkneski sem um leið
verður eins konar „Trójuhestur Bandaríkjamanna og vestrænna menn-
ingaráhrifa.“
Tvær þýðingar lykiltexta birtast hér í fyrsta sinn sem fjalla um íroníu á
ólíkum fræðasviðum, annars vegar heimspeki og hins vegar á sviði mann-
fræði og etnógrafíu. Ritgerð Richards Rortys um „einkaíroníu“ birtist fyrst
sem kafli í bókinni Contingency, Irony and Solidarity eða Hending, íronía og
samstaða sem kom út 1989. Í henni gerir Rorty greinarmun á sjálfsmynd-
arsköpun og menningarlegum hugmyndum sem hver einstaklingur fær
frá umhverfinu og elur með sér annars vegar, viðhorfum til samfélags og
stjórnmála hins vegar. Rorty lætur að því liggja að einn dýpsti misskiln-
ingur vestrænnar heimspeki birtist í þeirri frumspekilegu kröfu, að viðhorf
okkar til annars fólks þurfi að réttlæta með dýpri sannindum um mann-
legt eðli, skynsemi eða algild mannleg verðmæti. „Íronistinn“ sem Rorty
lýsir er manneskja sem hefur gert sér grein fyrir því að engin einkaviðhorf
hans eða hennar eru þess eðlis að þeim megi ekki skipta út fyrir önnur.
Þessi staðreynd breyti hins vegar engu um viðhorf okkar til þjáningar ann-
arra, né sé íronía líkleg til að valda siðferðilegu hruni – frekar en trúleysi.
Viðhorfin sem Rorty setur fram í þessum kafla bókar sinnar hafa haft mikil
áhrif og mörgum heimspekingnum hefur sviðið hin harða útreið sem rök-
greiningarhefð vestrænnar heimspeki fær hjá Rorty – hann líkir kollegum
sínum við ofsatrúarmenn, sem séu svo harðir á kröfunni um skynsamlega
réttlætingu, að þeir telji jafnvel að grimmd geti verið réttlætanleg, verði
ekki sýnt fram á annað.
Grein Mary Taylor Huber og James W. Fernandez er upphaflega skrif-
uð sem inngangur að greinasafninu Irony in Action: Anthropology, Practice,
and the Moral Imagination eða Íronía að verki: Mannfræði, iðkun og siðferðilegt
ímyndarafl sem kom út 2001. Þar er á ferð metnaðarfull samantekt á hlut-
verki íroníu í félagslegri hugsun sem og í etnógrafískum rannsóknum. Enn
víðari skírskotun hefur þó greining Huber og Fernandez á valdapólitík
íroníunnar og siðferðilegri ábyrgð þeirra sem höndla hana.
Íronísk samfélagsleg valdasamræða finnur sér í síauknum mæli far-
veg innan listarinnar og í þessu hefti eru íronískri myndlist gerð nokkur
skil. Sex listaverk eru sýnd í myndasyrpunni Óræð verk og íronísk og gefa
upp ákveðna, en ekki tæmandi, mynd af íslensku nýlistafólki sem beitt