Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 8
7
það, „sem undirmálsmaður sem ræður ekki við formið, hann reynir að til-
einka sér siði sem eru honum ekki í blóð bornir, eins og maður sem kann
ekki að beita gaffli í fínu boði“.1 „Ræður“ Ásmundar er raunar erfitt að
skilgreina sem hverja aðra gjörningalist en þó mætti skilja þær sem ákveðin
íronísk viðbrögð listamanns við umhverfi sínu. Þau eru þannig spéspegill
af listheiminum og stjórnendum „listframleiðslunnar“. Tengsl íronískra
verka við listafólk og umhverfi þeirra eru rædd í samtali Kristins Schram
við þá Snorra Ásmundsson og Hauk Má Helgason. Í Íronía, tjáningarfrelsi
og leyfið til að sjá, ganga þeir út frá verkum Snorra, sem reynt hafa á félags-
leg þolmörk stjórnmála og trúarbragða, og skiptast á skoðunum um hlut-
verk háðs, gagnrýni og tjáningarfrelsis í samfélagslegri samræðu.
Í þessu hefti er birt samræða stjórnmálamanns við fræðifólk, undir
yfirskriftinni Vettvangur. Hér er það Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar
framtíðar og áður borgarfulltrúi Besta flokksins, sem fjallar um íroníu í
stjórnmálum út frá dæmi Besta flokksins, sem vann stórsigur í borgar-
stjórnarkosningum í Reykjavík vorið 2010. Fjórir fræðimenn svara Óttari
og hann bregst svo við svörum þeirra. Samræða af þessu tagi hefur áður
birst í Ritinu, en hún er tilraun til að leiða saman fræði og stjórnmál, og
fá virka stjórnmálamenn til að takast á við gagnrýni úr fræðasamfélaginu.
Hin árangursríka – og háíroníska – kosningabarátta Besta flokksins er sett
í gagnrýnið samhengi, en um leið er beint og óbeint tekist á um grundvall-
arspurningar um íroníu: Hvenær skaðar hún frekar en að vekja upp spurn-
ingar? Hvenær eflir hún róttæk viðhorf, frekar en að drepa þeim á dreif og
eyða þeim?
Skylt efni er tekið fyrir í Suðupunktinum en Ritið auglýsti eftir greinum
úr háskólasamfélaginu þar sem höfundar brygðust við árásinni á ritstjórn
franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo. Árásin þann sjöunda janúar síð-
astliðinn vakti ekki aðeins hryggð og andstyggð á svívirðilegum morðum
heldur einnig umræður og deilur um málfrelsi og ritfrelsi, skop og háðs-
ádeilu, um rétt til að gera grín og hæðast að einstaklingum og hópum
og um mikilvægi satírunnar í stjórnmálamenningu samtímans. Hér á rit-
stýrðum vettvangi nálgast höfundar þessa samfélagsumræðu meðal annars
útfrá tengslum orða og ofbeldis, hugmyndum um tjáningarfrelsi, Íslam og
notkun gríns í fjölmenningarsamfélagi.
1 Valur Brynjar Antonsson, „Tuggur: hugleiðingar út frá ræðum Ásmundar Ásmunds-
sonar“, Kæru vinir / Dear friends: ræðusafn / collection of speeches, Reykjavík: Útúrdúr,
2010.
MERKInGARHEIMAR ÍRonÍUnnAR