Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Blaðsíða 15
14
af njáluhöfundi.22 Á hinn bóginn merkir líffræðileg tilvist Skarphéðins
á söguöld eða gömul frásagnarhefð um hann alls ekki að við getum ekki
notað orðið persónusköpun um þátt hans í Njálu þó að reyndar mætti alveg
eins nota persónutúlkun þegar höfundar skapa sögupersónur úr raunveru-
legu fólki í verkum sínum, hvort sem við köllum þá sagnfræðinga eða
skáld. Auðvitað er munur á persónutúlkun eða persónusköpun skálda og
sagnfræðinga – til að mynda munur á því frelsi sem skáldið og sagnfræð-
ingurinn telja sig hafa til að túlka persónuna – en persónusköpun fer þó
fram í sagnaritum rétt eins og í skáldsögum.23
Persónulýsing er flókið hugtak. Allir vita að bein lýsing er aðeins
hluti hennar þó að hún eigi stundum til að vera full yfirþyrmandi þegar
fræðimenn rita um persónulýsingar í sögunum. Skarphéðni er sannarlega
lýst beint þegar hann er kynntur í 25. kafla Njálu og bæði sagt frá útliti
hans, hæfileikum og einkennum. Þar er meðal annars sagt: „gagnorðr ok
skjótorðr, en þó lǫngum vel stilltr“.24 Eins og algengt er í flóknum bók-
menntatextum er honum þó fyrst og fremst lýst óbeint með orðum sínum
og verkum. Það hefur lengi verið almennt viðurkennt meðal fræðimanna
á sviði Íslendingasagna að slíkar mannlýsingar séu ekki minna um verðar
en hinar formlegu lýsingar þegar persónur eru kynntar til sögu.25 Fáir
hafa hins vegar orðið til þess að leggjast eins náið yfir orðræðu einstakra
Íslendingasagnapersóna á svipaðan hátt og hér verður reynt.26
Skarphéðinn hefur birst tvisvar í sögunni þegar hann talar fyrst en það
22 Hugtakið „njáluhöfundur“ vísar hér aðeins til höfundarins í verkinu eða grundvall-
armerkingar textans en ekki til neins tiltekins 13. aldar Íslendings eða Íslendinga.
23 Þó að Íslendingasögurnar séu ekki skáldsögur er margt sameiginlegt með formi
þeirra og sögulegra skáldsagna eins og margoft hefur verið vakin athygli á, sjá
m.a. Joseph Harris, „Saga as historical novel,“ Structure and Meaning in Old Norse
Literature: New Approaches to Textual Analysis and Literary Criticism, ritstj. John
Lindow, Lars Lönnroth og Gerd Wolfgang Weber, Óðinsvéum: odense UP, 1986,
bls. 187–219.
24 Brennu-njáls saga, bls. 70.
25 Eins og Vésteinn Ólason orðar það: „Mikilvægar persónur eru einatt kynntar til
sögu með stuttri umsögn eða jafnvel langri þar sem vikið er að útliti manna, hæfi-
leikum þeirra og mannkostum. […] En umfram allt lýsa menn sér sjálfir með orðum
sínum og athöfnum og því samræmi sem þar er á milli“ (Samræður við söguöld, bls.
109).
26 Vegna þess hversu almenn í málinu (og heiminum) íronía er verður ekkert vikið
hér að sérstöku 13. aldar samhengi textans eða merkingu hans fyrir 13. aldar áheyr-
endur. Um það eru til ýmsar bækur, m.a. Lars Lönnroth, Njáls Saga: A Critical
Introduction, Berkeley o.v.: Univ. of california Press,1976; Hermann Pálsson,
Uppruni Njálu og hugmyndir, Reykjavík: Menningarsjóður, 1984).
ÁRMAnn JAKoBSSon