Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 26
25
kjark á erfiðum stundum. Um leið skapar íronísk orðræða Skarphéðins
þá tilfinningu fyrir honum að hann sé hörkutól – í tvísæinu felst þannig
ákveðin harka mannsins sem heldur fjarlægð og gefur sig ekki tilfinning-
um á vald.57
3
Því fer fjarri að íronísk fjarlægð Skarphéðins glepji áheyrendur til að
skynja hann sem óviðkvæman mann, rauðu flekkirnir hafa nýst höfundi
vel til þess að koma því á framfæri að hann finnur líka til. Um leið nær
Skarphéðinn oft að vera næmur og viðkvæmur í íronískri orðræðu sinni,
ekki síst í orðum hans um kvöldsvæfa gamla menn í brennunni.
Tvísæið vitnar um ákveðna fágun hjá Skarphéðni. Hann er iðulega bor-
inn saman við Egil Skalla-Grímsson og Gretti Ásmundarson þó að þegar
betur er að gáð sé ekki endilega svo auðvelt að festa hendur á því hvað þess-
ir þrír kappar eigi sameiginlegt, annað en það tvennt að vera marghliða og
trúverðugar persónur (umfram flesta aðra sem birtast í Íslendingasögum)
og ekki eins og Gunnar á Hlíðarenda. Þó að Skarphéðinn sé heimaaln-
ingur sem aldrei fari úr landi og haldi sig raunar í skugga föðurins alla
tíð hefur hann marga bestu eiginleika hirðmannsins, þar á meðal fágaða
kátínu og íroníu. Þó að hann sé þekktur af mannvígum er hann fjarri því
að vera frumstæður eða villimannslegur. Umfram allt er hann að jafnaði
skapstilltur og hann er jafn tryggur föður sínum og góður hirðmaður væri
konungi sínum.
Samanborið við vanhugsuð víg Grettis eða fýluköst Egils58 birtist
57 Það er varla tilviljun að margar fleygar setningar í sögunni eru lagðar í munn
hörkutólum (s.s. Víga-Hrappi og Kol Egilssyni), stundum á dauðastundinni. njálu-
höfundur er óvenju örlátur á að leggja slíkar setningar í munn aukapersónum sem
bendir til þess að honum sé ekki aðeins annt um að nota kaldhæðna orðræðu til
að lýsa einstaklingnum heldur líka samfélagi sem einkennist af hörku og hnyttni.
Svipaða aðferð má sjá í ýmsum vestrum nútímans, t.d. í frægu atriði úr Il buono, il
brutto, il cattivo (1966) í leikstjórn Sergio Leone þar sem hinn slægi Tuco er í baði
þegar einhentur vígamaður kemur að honum og hælist yfir að hann muni nú drepa
hann með einni hendi en Tuco plaffar hann niður í miðri ræðu með byssu sem hann
hefur falið undir froðunni úr baðinu og segir: „When you have to shoot, shoot.
Don’t talk“, setning sem gæti allt eins komið úr Njálu.
58 Hér er persóna Egils vissulega einfölduð nokkuð; þó að varla sé hægt að deila
um að hann stjórni með fýluköstum þá er hann sannarlega flókin og marghliða
persóna, ekki síst í umgengni sinni við tungumálið. og hið sama gildir um Gretti
sem er sannarlega ekki einvörðungu ógæfumaður; þá væri saga hans ekki svona
áhrifamikil.
SKARPHÉðInn TALAR