Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 61
60
Ráðamenn tóku að skáka líkneskjum til og frá um bæinn þar sem þeim
þótti mest viðeigandi að þau væru sett niður samkvæmt sjálfsmynd þjóð-
arinnar. Úr varð að Hannes stóð við Stjórnarráðið en Thorvaldsen fékk
að víkja fyrir Jóni á Austurvelli og var settur niður við Tjörnina. Það má
hæglega líta svo á að býtti Thorvaldsens fyrir Jón hafi margt með það að
gera að Thorvaldsen var hálfdanskur og ekki tilhlýðilegt að hann stæði
fyrir framan Alþingishúsið – sem var nógu illa sett með það að á toppi þess
tróndi danska krúnan, og gerir enn.9
Thorvaldsen var hálfdanskur og var því rekinn af Austurvelli þar sem
Austurvöllur og umhverfi hans – Alþingishúsið – hafði ákveðið gildi
í hugum fólks sem hann samrýmdist ekki. Þar átti „frelsishetjan“ Jón
Sigurðsson að standa og „fylgjast með því að arftakar hans inni á alþingi
ger[ðu] ekki einhverja bölvaða vitleysu“.10 Thorvaldsen minnti fólkið á
dönsku herraþjóðina sem þurfti að þoka burt úr íslenskri pólitík og flutn-
ingur styttunnar var einn táknrænn þáttur í því.
Innan táknfræðanna er það almennt viðurkennt að táknmyndir merkja
ekkert einar og sér, heldur þarf að huga að samhengi þeirra til þess að gæða
þær merkingu. orð (orð eru táknmyndir) geta haft mismunandi merkingu
eftir samhengi. Ég var til dæmis staddur á jólaskemmtun fyrir nokkru þar
sem lagið Nú skal segja var sungið og tók eftir því að þegar kom að línunni
„þeir taka í nefið“ gripu börnin í nefið á sér líkt og þau væru að fara að
stinga sér til sunds. Væri þetta lag sungið í réttunum, eða um miðjan 6.
áratuginn er nokkuð víst að látbragðið yrði annað. Þar var ljóst að upp-
röðun táknmynda sem einhvern tíma höfðu merkt það að sjúga tóbak upp
9 Ég hef alltaf átt í vandræðum með hvað eigi að lesa í það að danska krúnan er enn á
toppi Alþingis. Yfirleitt er það fyrsta mál á dagskrá þegar nýlendur öðlast sjálfstæði,
eða þjóðir losna undan alræðisherrum, að táknmyndum þeirra sem prýða bæinn
er fargað. (opnunarsenan í Beitiskipinu Potemkin er t.d. erkidæmi: verkalýðurinn
kastar böndum á styttu af keisaranum og steypir honum/líkneski hans af stalli með
sameiginlegu átaki. Táknræn merking felst í orðunum: steypa af stalli). Það er að
mínum dómi aðeins hægt að lesa tvennt í höfuðskraut Alþingis. Annars vegar að
þrátt fyrir að við teljum okkur vera sjálfstæða þjóð þá er það aðeins hvít lygi sem
við segjum okkur til þess að trúa því. Krúnan sé því látin vera á sínum stað eins og
björgunarhringur sem hægt er að grípa í þegar allt fer til andskotans og við viljum
snúa sneypt aftur heim til danska föðurvaldsins. Hins vegar má líta á krúnuna
líkt og eilífa áminningu þess að við vorum eitt sinn kúguð en eigum nú að heita
sjálfstæð og frjáls, eins og ör á brenndum fingri er eilíf áminning um að leika sér
ekki að eldinum. Eins er vert að benda á að ámóta „táknræn refhvörf“ má finna í
þjóðmenningarhúsinu á Hverfisgötu en þá sögu rekur Ólafur Rastrick í „Hús með
sál – þjóðarsál: Lesið í sköpun menningarhúss“, Ný saga 1/2000, bls. 82–88.
10 Jón Karl Helgason, Ódáinsakur, bls. 113–114.
KJaRtan MÁR óMaRSSon