Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Blaðsíða 62
61
í nefið á sér hafði öðlast nýja merkingu í hugum þeirra sem yrtu.11 Þetta
getur eins átt sér stað í samhengi annarra táknmynda en tungumáls, þar á
meðal líkneskja. Eins verður að gera ráð fyrir því að merking ákveðinna
táknmynda geti horfið meðfram því sem lestur okkar á þeim verður sjálf-
sagður og „þokar sér inn á svið hins ómeðvitaða og sjálfvirka“.12 Rússneski
bókmenntafræðingurinn Viktor Shklovskíj talaði um að sjálfvirknin æti
upp hluti og fyrir vikið sæi maður einungis yfirborð þeirra. „Undir áhrif-
um slíkrar skynjunar þornar hluturinn upp, áhrifin frá honum fölna, merk-
ing hans sömuleiðis“.13
Væri maður spurður hvert væri mest ljósmyndaða líkneski á Íslandi væri
hægur vandi að svara því, með nokkurri vissu, án þess að leggjast í rann-
sóknir. Það væri líkneski Leifs heppna Eiríkssonar. Væri maður hins vegar
frekar inntur eftir því hvaða merkingu líkneskið hefði, hvað hann táknaði,
væri maður hugsanlega ekki eins fljótur til svara. Vani er að líta á líkneski
Leifs heppna sem trónir efst á Skólavörðuholtinu sem tákn um einhvers
konar framtakssemi og áræðni Íslendinga, Leif sem hinn upprunalega og
skammlausa útrásarvíking. En þá má aftur spyrja hvort eitthvað sé til í
því, eða hvort sú túlkun sé hreinlega vani og yfirborð. Má kannski vera að
maður yrði, lesi og lifi borg sína í móki, án þess að velta því nokkurn tíma
fyrir sér hvort steinninn sem maður gengur framhjá daglega, sem er sífellt
í sjónmáli, „sé sannarlega úr steini“.14
Til hamingju með afmælið
Í tilefni af Alþingishátíðinni 1930 tilkynntu fulltrúar Bandaríkjanna að
þing þeirra hefði „ákveðið að gefa íslenzku þjóðinni gjöf […] og sú gjöf
væri þegar ákveðin: Standmynd af Leifi heppna“.15 Gæska og gjafmildi
Bandaríkjamanna var aftur á móti vissum skilyrðum háð. Þeir vildu gefa
íslensku þjóðinni 25 feta háan pakka sem var ríflega 20 tonn á þyngd, en
11 Má jafnvel velta fyrir sér hvort þetta sé viss tegund af orwellísku „nó spík“ þar sem
tóbaksvarnarorðræðan er að þoka merkingunni úr tungumálinu, að það samræmist
ekki pólitískum rétttrúnaði heilsuverndarumræðunnar að láta börn neyta fíkniefna
á jólaskemmtunum, ekki einu sinni ímyndaðra.
12 Viktor Shklovskíj, „Listin sem tækni“, Spor í bókmenntafræði 20. aldar: Frá Shklovskíj
til Foucault, ritstj. Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir,
þýð. Árni Bergmann, bls. 21–42, hér bls. 27.
13 Sama rit, bls. 28.
14 Sama rit, bls. 29.
15 Höfundur óþekktur, „Leifur heppni“, Tíminn, 1. ágúst 1931, bls. 1.
TÝnDI SonURInn