Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 63
62
vildu jafnframt tryggja að honum yrði ekki holað niður í einhverri ljós-
lausri boru úr alfaraleið. Styttan þyrfti að fá stað sem sæmdi velgjörðinni.
Í bréfaskiptum íslenskra ráðamanna frá þessu skeiði er hægt að fylgjast
með umræðum þeirra um framtíðardvalarstað styttu Leifs heppna. Þar
kemur greinilega fram að „mikill hluti bæjarfulltrúa telur óheppilegt“ að
reisa styttu Leifs Eiríkssonar, gjöf Bandaríkjamanna, á Skólavörðuholtinu.16
Borgarstjóri og ráðgjafar gera tilraun til þess koma styttunni fyrir annars
staðar. Þeir reyna að miðla málum og benda á að þeir séu „enn sem fyr
þeirrar skoðunar“ að Skólavörðuholtið sé rangur staður og orða það í einu
bréfinu á þann veg að þeir séu þeirrar skoðunar að „Laugaholtið sé hinn
besti staður fyrir þetta minnismerki“. Þeir taka þó fram að með „tilliti til
hinnar framkomnu óskar gefandans“ skuli athugað hvort „unnt muni að
reisa minnismerkið nokkursstaðar utantil á Skólavörðutorginu”.17 Búið
var að gera ráð fyrir kirkju á miðju holtinu í skipulagsuppdrætti og ljóst var
að styttan myndi valda talsverðu raski þar á. Bæjarstjórnarmenn vega og
meta í bréfunum sín á milli, leggja til að færa styttuna hingað eða þangað,
spyrja hvort ekki megi – þurfi hún nauðsynlega að vera á holtinu – stað-
setja styttuna fremst við gatnamót Skólavörðustígs og njarðargötu, eða yst
á hinum endanum. Það skín í gegnum innihald bréfanna að bróðurpartur
bæjarstjórnar er ósáttur við kröfur Bandaríkjamanna og vill finna styttunni
annan stað, þótt orðalagið sé ávallt varfærnislegt:
[o]ss virðist hvorugur þessi staður [Skólavörðuholt og Laugaholt]
vera vel til fallinn fyrir þetta minnismerki, en vjer höfum bent á
þá vegna þess, að oss finst rjett að taka tillit til þeirrar óskar
Bandaríkjastjórnar, að minnismerkið verði reist einhversstaðar á
Skólavörðuholtinu.18
Í fyrri bréfum ráðamanna var aðeins rætt um að taka málið til athugunar,
„svo sem stjórn Bandaríkjanna helst óskar“ og eftir að hafa þvælt efnið
fram og til baka, hvort reisa eigi styttuna á Skólavörðuholtinu, taka undir-
ritaðir fram: „viljum vjer ekki leggja til að svo verði gjört“.19 Eftir því sem
16 Þjóðskjalasafn, Forsætisráðuneyti 1989–B/40. Alþingishátíðin 1930, Mappa II og
III. Sjá: Höfundur óþekktur, „Styttan af Leifi heppna“. http://www. skjaladagur.
is/2005/001_html [Sótt 18. desember 2013].
17 Sama stað.
18 Sama stað.
19 Sama stað.
KJaRtan MÁR óMaRSSon