Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 77
76
íslenskri menningu er tóm. En með því að steypa mynd hans í mót er verið
að festa Leif sem persónu í tíma, færa hann nær hinu háleita, sviði hins tíma-
lausa, líkt og helgimynd.64 Það mætti til sanns vegar færa að sú helgimynd
sé hirðfífl sem þjónar tveimur herrum – Evrópu og norður Ameríku –,
sem gnæfir yfir borginni á hátindi bæjarins: Trójuhestur Bandaríkjamanna
og vestrænna menningaráhrifa. Til voru þeir sem þóttust sjá í gegnum
þessa leiki, en kannski voru það bara götubörnin og sauðsvartur almúginn
sem sáu að keisarinn var ekki í fötum; að Ameríkanarnir létu þann sem fann
þá standa ofar en þann sem fann okkur; að út frá íslensku menningarsögu-
legu samhengi er Leifur hol táknmynd.65 orð Guðmundar Finnbogasonar
hljóma í þeynum, að andlegt heilbrigði hverrar þjóðar helgist af því að
„hún hafi fyrir augum sjer varanleg verk, sem hún hefur sjálf skapað, og
eru innblásin af anda hennar“.66 Samkvæmt því mætti líta á Leif sem hlut-
tekningu pestar sem hrjáir andlegt heilbrigði íslensku þjóðarinnar.
Færa mætti rök fyrir því að væri vottur af hugsun í tákngervingu
holtsins ætti það að vera Hrafna-Flóki sem stæði þar, úr því hann kom
að minnsta kosti hingað vitandi vits. Sumir viðruðu óánægju sína með
þróun þjóðfélagsgerðarinnar í blaðaskrifum þar sem talað var um yfirgang
„erlendra áhrifa“, og að það þyrfti að stía þjóðinni frá „þessum erlendu
straumum með öllum hugsanlegum tækjum“.67 Svo voru aðrir sem sáu til
64 Katherine Verdery , Political Lives of Dead Bodies: Reburial and Post-Colonial Change,
new York: columbia University Press, 1999, bls. 5.
65 Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að 1926 ritar óþekktur höfundur í Dagblaðið
um fyrirhugaða byggingu kaþólsku kirkjunnar í Landakoti (hornsteinn var lagður
1927 og kirkjan var fullreist 1929). Hann veltir því fyrir sér af hverju rætt sé um að
bygging þessi rísi á einum hæsta punkti bæjarins þar sem útsýn sé fegurst. „Mun
ýmsum finnast, að þeir sem þessum málum ráða, séu furðu leiðitamir við útlenda
menn og haldi ekki eins vel á málstað bæjarins og skyldi. Það ber ekki vott um
mikla sjálfstæðiskend, að leyfa keppinaut þjóðkirkjunnar að byggja sér varanlegt
musteri á eftirsóknarverðasta bletti bæjarins og gera því svo hátt undir höfði, að
gatnaskipulag í heilum bæjarhluta skuli við það miðað. Virðist erindi útlendinga
hér vel rekið, en metnaðarmálum og hagsmunaatriðum bæjarbúa miklu minna
gætt“. Höfundur óþekktur, „Kaþólsk háborg á Hólavelli?“, Dagblað, 14. maí 1926,
bls. 2. Hér skal ekki fjölyrt um xenófóbíu pistlahöfunda 3. áratugarins (ritdeilur
spunnust út vegna greinar Dagblaðsins t.d.) en þess heldur er tilgangurinn að benda
á vissa togstreitu, jafnvel þverstæðu sem virðist viðloðandi í tíðarandanum. Þrátt
fyrir sjálfsmyndarsköpun hins „sanna Íslendings“og sjálfstæðisbaráttu „Íslendinga“
láta íslenskir embættismenn – eða eru í það minnsta taldir láta – undan erlendum
þrýstingi og skipa „óíslenskum táknum“ hæstan sess (þ.e. á hæstu hæðum bæjarins)
í höfuðstað landsins.
66 Höfundur óþekktur, „Ræða“, Lögrjetta, 3. desember 1923, bls. 2.
67 Einar olgeirsson, „Erlendir menningarstraumar og Íslendingar“, bls. 9.
KJaRtan MÁR óMaRSSon