Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 109
108
marga grunaði að yrði einn allsherjar áfellisdómur yfir íslenskum stjórn-
mála-, stjórnsýslu- og fjármálaelítum, eins og raunin varð.
Í þessu andrúmslofti safnaði Jón Gnarr saman þeim sundurlausa hópi,
sem varð að Besta flokknum, og leiddi hann fram á svið stjórnmálanna. Það
voru viðbrögð við vonleysis- og leiðindaástandi. Þetta var ekki í fyrsta sinn
sem aðferðafræði háðs og kaldhæðni hafði verið beitt í íslenskum stjórn-
málum. o flokkurinn, Sólskinsflokkurinn og Öfgasinnaðir jafnaðarmenn
höfðu létt mönnum lund þegar þessi framboð buðu fram, en aldrei verið
tekin alvarlega enda upplifði fólk það svo að þau væru svokölluð „grín-
framboð“ Það var helst að Funk-listinn á Ísafirði hefði erindi sem erfiði.
Listinn fékk tvo menn kjörna og endaði á því að mynda meirihluta í bæj-
arstjórn. Funklistinn var óhefðbundinn og sló á létta strengi. En framboð
hans var ekki grín. Listinn barðist fyrir sjónarmiðum æskufólks og afneit-
aði ríkjandi ástandi.
Að þessu leyti var Besti flokkurinn á svipuðum slóðum og Funk-listinn.
Það var alvara í þátttökunni og það stóð ekki annað til en að taka ábyrgð.
Áherslan var á að hafna aðferðafræði og orðræðu sem var búin að ganga af
sjálfri sér dauðri, ‘breyta til’ og reyna að gera það uppbyggilega. Verkfærin
sem hópurinn tók með sér úr listamennskunni voru anarkismi og súrreal-
ismi, sem Jón Gnarr sló saman í hugtakið AnarkóSúrrealismi og síðast og
ekki síst, íronía. Við höfðum litla hugmynd um það hvort þetta myndi skila
árangri í kosningum, efuðumst frekar en höfðum altént ekki af því nokkrar
áhyggjur. Aðalatriðið var að hafa áhrif á umræðuna, víkka mörk hefðbund-
inna stjórnmála og hæðast að hefðbundnu lýðskrumi. Íronían varð verkfæri
til núllstillingar. Hvaða trú eða vantrú sem við í Besta flokknum höfðum
á ævintýrinu þá voru kjósendur aldeilis að kaupa það og gerðu flokkinn að
stærsta flokki borgarinnar. Þegar Jón Gnarr var orðinn borgarstjóri urðu
góð ráð dýr. Íronía er góðra gjalda verð í gagnrýnisskyni. En hvern ætla
ráðandi öfl að gagnrýna? Hvernig beitir aðalgaur á borð við borgarstjóra
íroníu? Snýr hann út úr forverum sínum? Verður minnihlutinn skotspónn
eða beinist íronían að honum sjálfum. Þegar allt hafði gengið upp þurftum
við að spyrja okkur þessara spurninga og eiginlega erum við enn að spyrja
okkur þeirra.
Það er ekki úr vegi að velta fyrir sér hlutverki íroníunnar í umræðu.
Íronía hefur óumdeilt gildi í gagnrýni. Hún getur brugðið upp nýju ljósi
á valdhafa eða ástand. Hún er góð leið til að koma róti á umræðu og rífa
hana uppúr hjólförum. Sér í lagi ef henni er beitt af þeim, eða fyrir hönd
óttaRR PRoPPé