Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 118
117
Ein meinsemdin í samfélagsumræðu á Íslandi er hvernig magnaðar eru
upp einfaldaðar andstæður: Höfuðborg–landsbyggð, karlar–konur, Ísland–
Evrópa, álver–fjallagrös o.s.frv. o.s.frv. Það er auðvitað minna vesen að
hugsa um heiminn í slíkum andstæðum en samt vitum við öll að hann er
ekki þannig. Hann er flókinn, samfélag okkar er flókið og það er mjög
krefjandi að kafa ofan í flókin mál, brjóta þau til mergjar, ræða þau í þaula
og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvað beri að gera,
hvert skuli stefna. Þó vita allir, af sinni hversdagslegu reynslu, að það fæst
gleði og fullnægja út úr því að sökkva sér í erfið verkefni. Það er því áleit-
in spurning hvort andstæðan skemmtun–leiðindi sé eitthvað hjálplegri í
fangbrögðunum við veruleikann en andstæðuklisjurnar sem ég taldi upp
hér að ofan. Ef sett er samasemmerki milli leiðinda og formfestu, svo
dæmi sé tekið, letur það ekki þau sem vilja hugsa kerfisbundið um til-
tekin úrlausnarefni í samfélaginu? og er hugsanlegt að fólk veigri sér við
að leggja á djúpið ef skemmtigildið á að vera hið æðsta gildi í opinberri
umræðu? Ýmislegt bendir til þess að í íslensku samfélagi þurfi frekar að
ýta undir það að við tökumst á við sameiginleg verkefni af alvöru, höfum
úthald til að leiða þau til lykta og þolum þá leiðindakafla sem líklegt er að
komi upp í ferli sem ætlar sér undir yfirborðið. Við eigum í vandræðum
með stjórnarskrána, með menntakerfið, með nýtingu auðlindanna, með
heilbrigðiskerfið, með byggðamálin, svo æpandi dæmi séu nefnd. Þessir
málaflokkar virðast ævinlega vera í einhvers konar pattstöðu eða gíslingu
og það reynist erfitt að leiða fram til úrlausnar þá þekkingu og reynslu sem
þó er til í landinu. „Minna vesen“ er yfirlýst markmið Bjartrar framtíðar,
eins og kemur fram hjá Óttari, og því hljótum við að spyrja: hvernig getur
það mottó vísað veginn út úr þessum ógöngum? Hvað er vesen? Er það
Svanhildur óskarsdóttir
Gildi leiðinda
Ritið 1/2015, bls. 117–119