Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 119
118
yfirvegun, formfesta, verkferlar og reglugerðir, eða getur verið að skortur
á undirbúningi, formfestu og fagmennsku sé sífellt að skapa okkur vesen?
nýlegar hremmingar fyrrum innanríkisráðherra virðast dæmi um það en
kannski þarf þingið líka að líta í eigin barm. Er hugsanlegt að illa undirbú-
in frumvörp sem verða að illa smíðuðum lagabálkum hafi margföld ves-
enisáhrif úti í samfélaginu? Út um allt okkar flókna samfélag er fólk sem
hefur skýra sýn á verkefni og veit hvernig best er að vinna þau. Fagmenn
af báðum kynjum. Þessu fólki er misboðið þegar aðrir komast upp með
að kasta til höndum, vegna þess að ekki er samstaða um leiðir, reglur eru
ekki skýrar og eftirlit í skötulíki. Það er kannski ekki uppskrift að skemmti-
dagskrá að vinna í að setja markmið og varða leiðir, semja reglur og kanna
hvort þeim sé fylgt. En þetta gerir fólk með glöðu geði í störfum sínum, í
tómstundaiðkun og á heimilunum. Til þess að allt gangi betur og ánægjan
skipi meira rúm. Ég held ekki að almenningur sé að gefast upp á veseni.
Hann er að gefast upp á fúski.
Fúskið tekur völdin vegna þess að það vantar mikilvægan hlekk í sam-
talið sem Óttarr talar um að þurfi að eiga sér stað milli almennings og
stjórnmálamanna. Almenningur hefur þrátt fyrir allt verið ötull við að láta
í sér heyra að undanförnu. Fólk mætir á útifundi, skrifar undir áskoranir
og nýtir sér nýja miðla til þess að bera fram vitneskju og tjá skoðanir sínar.
Þetta nefnir Óttarr en segir um leið að þessi umræða fari „í auknum mæli
framhjá hefðbundnu samtali stjórnmálanna“ og það má lesa í mál hans
að það sé vegna þess stjórnmálamenn geti ekki tileinkað sér kaldhæðni
og sniðugheit sem séu aðalsmerki umræðunnar úti í samfélaginu. En er
það kjarni málsins? Liggur vandinn ekki fremur í því að samtal almenn-
ings við stjórnmálamenn á sér ekki stað við borðið þar sem málum er
raunverulega ráðið. Vantraust almennings á stjórnmálamönnum byggist
ekki síst á þeirri tilfinningu fólks að það sé alveg sama hversu mörg sjón-
armið eru reifuð í umræðunni, hversu mikil þekking er dregin saman af
öllum þeim vel menntuðu og upplýstu manneskjum sem til eru í landinu:
þegar á reynir komi þeir sem raunverulega hafa völdin – „Freki kallinn“ –
að máli við stjórnmálamennina (einhvers staðar á gráa spillingarsvæðinu)
og sópi fagmennsku sérfróðra, yfirvegun upplýstra og síðast en ekki síst
almannahagsmunum út af borðinu. Almenningur fær ekki að eiga neinn
hlut að því samtali. niðurstaða þess birtist honum hins vegar þegar stjórn-
málamennirnir sjást á ný og hafa endurskilgreint öll sín orð svo þau merkja
nú allt annað en þau merktu í samtalinu göfuga við almenning. Þannig er
SvanhilduR óSKaRSdóttiR