Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 123
122
Í ríkjum þar sem lýðfrelsi er tryggt á aftur á móti svo að heita að leyfi-
legt sé að segja hvað sem er, meira að segja um valdið og fulltrúa þess, og
jafnvel megi gera óbeislað grín að þeim. Í reynd eru á því einhver mörk;
ráðamenn þola ekki hvað sem er og eiga það til að beita valdinu til að svara
fyrir sig.
Ýmsir höfundar hafa haldið því fram á síðustu árum og áratugum að
nú orðið sé auðveldara að gera sér heimsendi í hugarlund en endalok kap-
ítalismans. Aðsteðjandi náttúruvá, að ekki sé minnst á aukna misskiptingu
og endurteknar efnahagskreppur, virðast renna stoðum undir þá skoðun
að kapítalisminn verði með okkur allt til enda veraldar, sem raunar sé á
næsta leiti. Þegar svo er í pottinn búið er þörf fyrir stjórnmál sem fundið
geta leiðir til að varpa rýrð á valdið, liða einræðu þess í sundur og draga
fram margræðnina sem undir býr og óréttlætið sem í henni felst. opna
það sem reynt er að loka, hleypa upp því sem á að vera slétt og fellt, draga
fram það sem fara verður leynt. Þannig getur sannleikurinn gengið í lið
með háðinu.
Slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek hefur víða í ritum sínum sagt
eftirfarandi brandara: Maður nokkur er dæmdur til Síberíuvistar. Áður en
hann kveður sammælist hann við vini sína um að notast við litað blek til að
gefa til kynna hvort yfirvöld í fangabúðunum hafi fyrir því að ritskoða bréf
vistmanna: sé blekið rautt er ekkert að marka það sem í bréfinu stendur,
en sé blekið blátt er óhætt að taka það trúanlegt. Síðan berst fyrsta bréfið,
ritað með bláu, þar sem fangavistinni er lýst sem mikilli sælu, maturinn
ljúffengur, góðar rúmdýnur og alúðleg yfirvöld – og allt til alls: það eina
sem vanti sé rautt blek!
Sá jóker í íslenskum stjórnmálum sem Besti flokkurinn var – í það
minnsta í Reykjavíkurborg en einnig að vissu marki á landsvísu – varð til
þess að draga úr helgi stjórnmálanna og færa þau nær lýðnum sem heita á
valdhafinn í þjóðfélagi eins og okkar. Stjórnmál eru ekki yfir okkur hafin,
þau eru okkar mál. Jafnframt eru stjórnmál í lýðræðisríki þess eðlis að
stöðugur vafi hlýtur að leika um það hvort þau sem við stjórnvölinn sitja
hafi gilt umboð til þess: í þeim skilningi er lýðræðið einmitt stjórnarfar þar
sem sami rassinn er undir öllum. Segja má að stefna Besta flokksins, eða
stefnuleysi hans, hafi á launhæðinn hátt sveipað þessi nöktu sannindi klæð-
um. En þau voru að vísu gegnsæ eins og í ævintýrinu forðum, eða jafnvel
ekki til þegar að var gáð. Það er ekki nóg að finna upp slagorð sem gera
grín að innihaldsleysi stjórnmálanna – raunin er satt að segja sú að stjórn-
B J ö R n Þ o R S t e i n S S o n