Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 137
136
þekkingarfræði er gríðarlega áhrifamikil innan vísindaheimspekinnar og
vísindanna sjálfra, auk þess sem margir tölfræðingar aðhyllast bayesíska
nálgun á þekkingaröflun. Af þessum sökum er eðlilegt að spyrja hvort
þessi tvö viðhorf séu með einhverjum hætti ósamrýmanleg eða hvort þau
megi sameina eða samþætta með einhverjum hætti – og ef svo er, hvernig
það skuli best gert.
Í þessari grein er sett fram tiltekin kenning um hvernig megi samþætta
bayesíska þekkingarfræði og ályktun að bestu skýringu. Í stuttu máli verða
færð rök fyrir því að þeir eiginleikar sem geri vísindatilgátu að betri skýr-
ingu geri hana að öllu jöfnu líklegri, og að það sé vegna skilyrtra líkinda á
að hin rétta skýring umræddra gagna hafi slíka skýringareiginleika. Þessi
kenning er sett fram og rökstudd í seinni hluta greinarinnar (kaflar 4 og
5). Í fyrri hluta greinarinnar (kaflar 2 og 3) er hins vegar gerð tilraun til að
setja fram skorinorðar lýsingar á meginstraumunum tveimur, ályktun að
bestu skýringu og bayesískri þekkingarfræði. Lítið sem ekkert hefur verið
skrifað á íslensku um þessi tvö meginviðhorf í vísindalegri þekkingarfræði
og því er það von mín að þessir hlutar greinarinnar nýtist íslenskum les-
endum sem einskonar inngangur að heimspekilegri rökræðu undanfarinna
áratuga um þekkingarfræði vísindalegra rannsókna.
2. Ályktun að bestu skýringu
Þótt ýmsir hafi í gegnum tíðina sett fram svipaðar hugmyndir um mik-
ilvægi skýringargæða í þekkingarfræðilegu tilliti2 er Gilbert Harman jafn-
an talinn fyrstur til að setja fram nákvæma útgáfu þeirrar ályktunarreglu
sem nú er iðulega nefnd ályktun að bestu skýringu.3 Harman lýsir þessari
reglu þannig að í henni „er ályktað, út frá þeirri forsendu að tiltekin til-
gáta myndi skýra gögnin „betur“ en nokkur önnur tilgáta, að þessi tiltekna
tilgáta sé sönn.“4 Hugmynd Harmans er sem sagt að það hversu vel til-
teknar tilgátur myndu skýra fyrirliggjandi gögn – það sem við skulum kalla
skýringargæði tilgátnanna – ákvarði hvort og hvaða tilgáta skuli álykta að
2 Þar ber sérstaklega að nefna bandaríska pragmatistann charles Sanders Peirce,
sem skrifaði umtalsvert um slíkar ályktanir og var fyrstur til að nota um þær orðið
„abduction“ – sem enn hefur ekki fundist góð íslensk þýðing á svo þessi höfundur
viti til.
3 Gilbert Harman, „The Inference to the Best Explanation“, The Philosophical Review
74/1965, bls. 88–95.
4 Gilbert Harman, „The Inference to the Best Explanation“, bls. 89. (Þýðing höf-
undar).
FinnuR dellSén