Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 141
140
teknu tilliti til þeirra gagna sem fyrir liggja hverju sinni.14 Í bayesískri þekk-
ingarfræði er gengið út frá því að þessar líkur mæli hversu mikinn trúnað (e.
credence) leggja skuli á að tiltekin staðhæfing sé sönn. Þessi trúnaður getur
verið allt frá því að vera enginn – og þá eru samsvarandi líkur 0 eða 0% –
yfir í vera algjör – og þá eru samsvarandi líkur 1 eða 100%. Raunar telja
flestir bayesískir þekkingarfræðingar að trúnaður gagnvart fullyrðingum
eigi aldrei að vera algjör eða enginn, nema ef til vill þegar um rökhæfingar
er að ræða. Þannig eigi til dæmis sá sem sér dropa koma úr lofti og finnur
hvernig hann lendir á andlitinu á sér ekki að leggja fullan trúnað á að nú
rigni úti, heldur ætti trúnaðurinn að nema 99,99% eða viðlíka.15
Hugmyndin um að rökstuðningur vísindalegra tilgátna hafi eitthvað
með líkur að gera gæti virst augljós og jafnvel óáhugaverð. Svo er þó ekki
þegar nánar er að gáð vegna þess hvernig líkur á ólíkum fullyrðingum
spila saman í bayesískri þekkingarfræði. Svo tekið sé afar einfalt dæmi,
þá má auðveldlega sanna að ef P leiðir af sér Q, þá eru líkurnar á P ekki
meiri en líkurnar á Q. Við eigum því ekki að leggja meiri trúnað á P en
Q samkvæmt bayesískri þekkingarfræði. Þetta kemur heim og saman við
skoðanir okkar flestra um hvernig skuli dreifa trúnaði milli fullyrðinga. Til
dæmis eigum við ekki að leggja meiri trúnað á að einhver sé piparjúnka en
að viðkomandi sé kona, enda leiðir hið síðara af hinu fyrra. Af þessu sést
að rökleg tengsl milli fullyrðinga hafa í för með sér mikilvægar tengingar
á þeim trúnaði sem okkur ber að leggja á fullyrðingar í bayesískri þekking-
arfræði.
Langtum mikilvægasta tengingin milli trúnaðar á ólíkum fullyrðingum
sem kveðið er á um í bayesískri þekkingarfræði er sú sem kenningin sjálf
er nefnd eftir. Þetta er hin svonefnda regla Bayes (e. Bayes’s Theorem), sem
kennd eru við séra Thomas Bayes (1701–1761). Til að skilja þessa reglu
14 Það skal tekið fram að hér er verið að nota orðið „líkur“ í tæknilegri merkingu sem
hvaðeina það er uppfyllir tiltekin skilyrði sem kveðið er á um í þremur frumsendum
kenndum við rússneska stærðfræðinginn Alexander Kolmogorov. Erlendur Jónsson
fjallar í bókinni Hvað eru vísindi? um frumsendur Kolmogorovs í heimspekilegu
samhengi, sjá kafla 5.
15 Fyrir þessu eru þau rök að 100% líkur útiloki í raun möguleikann á því að viðkom-
andi hafi rangt fyrir sér. Fullur trúnaður er í reynd yfirlýsing um óskeikulleika hvað
þá fullyrðingu varðar, sem stríðir gegn almennt viðurkenndri skeikulleikakenningu
(e. fallibilism) í þekkingarfræði. Þessu nátengt er að í bayesískri þekkingarfræði valda
100% líkur allskonar vandræðum, t.d. er ekki hægt að rökstyðja fullyrðingu sem
nú þegar eru 100% líkur á að sé sönn, vegna þess að þá er ekkert sem getur aukið
líkurnar á að hún sé sönn. (nánar er fjallað um rökstuðning í bayesískri þekking-
arfræði í lok þessa hluta.)
FinnuR dellSén