Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 148
147
þá sýnir þetta dæmi að í sumum tilfellum þjónar einfaldleiki ekki þeim til-
gangi að auka líkurnar á tilgátum. Þvert á móti minnkar það líkurnar á að
tilgátan sé sönn að hún sé of einföld.
Þetta er ekki einangrað dæmi. Almennt séð getum við haft ástæðu til
þess að halda að tilgáta sé ólíklegri til að vera sönn að því marki sem hún
býr yfir tilteknum skýringareiginleikum. Læknisheimsóknin sýnir þetta
um einfaldleika en það hefði mátt taka önnur dæmi þar sem sami lærdóm-
ur er dreginn um aðra skýringareiginleika. Þeir lesendur sem eiga í erf-
iðleikum með að ímynda sér raunhæf dæmi af þessu tagi geta gripið til þess
ráðs að hugsa sér að alvitur vera birtist og segi þeim í óspurðum fréttum að
skýringin á hinu og þessu hafi alls ekki tiltekna skýringareiginleika. Með
þessu er ég ekki að segja að slíkar aðstæður séu sérstaklega algengar, en
ég tel slík dæmi þó sýna að áhrif skýringareiginleika á líkur geti verið lítil,
engin, og jafnvel neikvæð (eins og í dæminu hér fyrir ofan). Þess vegna er
framköllunarkenningin í raun ýkjur eða ofureinföldun á sambandi líkinda
og skýringareiginleika.
Að mínu mati nægir þetta til að sýna að framköllunarkenningin þarfn-
ast verulegra endurbóta, en þó tel ég annan verulegan ágalla á kenning-
unni. Þessi vandi á rætur að rekja til þess að samkvæmt framköllunarkenn-
ingunni þjóna skýringareiginleikar sem slíkir í raun engum sjálfstæðum
þekkingarfræðilegum tilgangi. Ef marka má framköllunarkenninguna má
lýsa vísindalegum rannsóknum án þess að minnast á skýringareiginleika
yfirhöfuð, enda stjórnast hún af líkum einum saman í samræmi við bayes-
íska skilyrðingu og reglu Bayes. Ályktun að bestu skýringu er vissulega
samrýmanleg bayesískri þekkingarfræði samkvæmt framköllunarkenning-
unni en hún bætir engu við. Í ljósi þess að bayesísk þekkingarfræði er mun
nákvæmari og skýrari leið til að lýsa vísindalegri þekkingaröflun, auk þess
sem undirstöður og réttlæting bayesískrar þekkingarfræði eru mun traust-
ari að flestra mati, má því spyrja hvers vegna við ættum yfirhöfuð að hafa
áhuga á ályktun að bestu skýringu ef framköllunarkenningin er rétt.
Við gætum að sjálfsögðu dregið þá ályktun af þessu öllu saman að rétt
sé að gefast upp á ályktun að bestu skýringu, enda hafi hún ekkert fram að
færa sem bayesísk skilyrðing hafi ekki nú þegar veitt okkur.29 Í ljósi þess
29 Wesley Salmon virðist aðhyllast slíka niðurstöðu þegar hann segir að ályktun að
bestu skýringu virðist geta lært meira af bayesískri þekkingarfræði en öfugt. (Wesley
c. Salmon, „Reflections of a Bashful Bayesian: Reply to Peter Lipton“, Explanation:
Theoretical Approaches and Applications, ritstj. Giora Hon og Sam S. Rakover, Dor-
drecht: Kluwer, bls. 121–136.)
TVÖ VIðHoRF TIL VÍSInDALEGRAR ÞEKKInGAR – EðA EITT?