Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Síða 165
164
öðlast fullt sjálfstæði. Eins og Ólafur Rastrick hefur fjallað um í greiningu
sinni á menningarpólitík á Íslandi í byrjun tuttugustu aldar, lögðu íslensk
stjórnvöld mikla áherslu á að hlúa að listum til að stuðla að auknum þroska
einstaklinga og endurreisa íslenska menningu í takt við aðrar evrópskar
menningaþjóðir.29 Það að vera Íslendingur var þannig ekki skilið út frá
einfaldri tvíhyggju, andstæðunum svartur og hvítur, heldur mun frekar út
frá flókinni tilraun til að staðsetja Ísland innan hugmynda um þróað, sið-
menntað samfélag þar sem „hvítur“ var einn af þeim þáttum sem hægt var
að nota til að draga enn skýrar fram tengslin við aðrar Evrópuþjóðir og
gera lítið úr sögu Íslands sem nýlendu.30 Portúgal er, rétt eins og Ísland,
lítið Evrópuland, en þar hafa hugmyndir um kynþætti og kynþáttafor-
dómar mótast í tengslum við fyrri stöðu Portúgals sem heimsveldis sem
er augljóslega allt öðruvísi en saga Íslands, þrátt fyrir að menntamenn þar
hafi einnig tekið upp sömu kynþáttaflokkanir og íslenskir menntamenn.
Eins og Elsa Paralta og Simone Frangella benda á einkennist samtíma
umræða í Portúgal um sögu landsins sem fyrrverandi heimsveldis af stolti
þar sem lögð er áhersla á sérstöðu Portúgals sem nýlenduveldis vegna þess
að blöndun kynþátta og náin tengsl á milli nýlenduherra og viðföng hafi
einkennt nýlenduáherslur þeirra. Raunveruleikinn er engu að síður sá að
miklir kynþáttafordómar og ofbeldi einkenna einnig þessa sögu.31
Textar hafa þann eiginleika að ferðast í tíma og rúmi og hugmyndir
sprottnar úr einu samfélagslegu samhengi á ákveðnum tíma verða því hluti
af félagslegu umhverfi einstaklinga. Þetta þýðir að við verðum að leggja
áherslu á sértæk einkenni kynþáttahyggju sem ég ræddi um fyrr og skoða
samhliða hvernig hún felur einnig í sér þrástef sem eru keimlík á milli
ólíkra menninga, en slíkt er langt frá því að vera einfalt. Miðlar dreifa
þannig hugmyndum sem sprottnar eru úr sérstökum sögulegum aðstæð-
29 Ólafur Rastrick, Háborgin: Menning, fagurfræði og pólitík í upphafi tuttugustu aldar.
Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2013.
30 Kristín Loftsdóttir, „Belonging and the Icelandic others: Situating Icelandic
Identity in a Postcolonial context“, Whiteness and Postcolonialism in the Nordic
Countries, ritstj. Kristín Loftsdóttir og Lars Jensen, Farnham: Ashgate, 2012, bls.
57–72.
31 Elsa Paralta og Simone Frangella, „Portugal and the Empire: Discourse and Prac-
tice on Race and Gender“, Teaching “Race” with a Gendered Edge, ritstj. Brigitte
Hipfl og Kristín Loftsdóttir, Utrecht og Budapest: Atgender og central European
Press, 2011, bls. 97–110.
KRiStín loFtSdóttiR