Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Síða 166
165
um inn í ólíkt menningarlegt og félagslegt samhengi. Arjun Appadurai32
bendir til dæmis á að minningar í samtímanum eru oft minningar annarra
einstaklinga eða hópa en ákveðin túlkun þeirra verður algild í gegnum
afþreyingarefni af ýmsum toga. Jessie Daniels33 beinir athygli að mikilvægi
þess að auka rannsóknir á kynþáttafordómum sem koma fram á alnetinu
því í raun megi líta á alnetið sem pólitískan vettvang þar sem barist er
um að skilgreina kynþáttafordóma og hvernig túlka eigi fortíðina. Slíkar
umræður og vefsíður eru lesnar og túlkaðar af ólíku fólki sem býr víða í
heiminum. Gott dæmi um það eru Wikipedia-síður þar sem samtök hvítra
öfgasinna reyna markvisst að breyta upplýsingum, til dæmis um Martin
Luther King, eitt helsta tákn Bandaríkjanna fyrir baráttu borgaralegra
réttinda svartra.34 Eins og Gavan Titley35 bendir á má sjá aukna áherslu á
rannsóknir á hatursumræðu á netinu í tengslum við uppgang öfga-hægri
afla en mun minna er skoðað hvernig kynþáttafordómar birtast í öðru
samhengi í netmiðlum.36 Það er mikilvægt að skoða betur hvernig hug-
takið kynþáttur fær inntak í samtíma okkar í gegnum margskonar miðla og
jafnframt hvernig kynþáttafordómar geta endurspeglast í hversdagslegum
umræðum hópa sem kenna sig ekki við hatursorðræðu
Kynþáttafordómar á Íslandi
Vaxandi fjöldi fólks af erlendum uppruna á Íslandi hefur kallað á aukna
umræðu um svokallað fjölmenningarlegt samfélag á Íslandi og ólíkar birt-
ingarmyndir þess. Ísland hefur verið í virkum tengslum við umheiminn í
langan tíma og verið í gegnum aldir hluti af margvíslegum þverþjóðlegum
tengslum37 Hugmyndir um kynþáttaflokkanir sem voru algengar víða í
Evrópu undir lok 19. og í upphafi 20. aldar voru teknar upp af íslenskum
32 Arjun Appadurai, Modernity at large: Cultural dimensions of globalization, Minnea-
polis: University of Minnesota Press, 1996.
33 Jessie Daniels, „Race and racism in Internet studies: A review and critique“, New
Media & Society, 15 (5) 2013, bls. 695–719.
34 Sama rit, bls. 704.
35 Gavan Titley, „no apologies for cross-posting: European trans-media space and
the digital circuitries of racism“, Crossings: Journal of Migration and Culture, 5 (1)
2014, bls. 41–55.
36 Sama rit, bls. 46.
37 Unnur Dís Skaptadóttir, „The context of Polish Immigration and Integration in
Iceland“, Integration or Assimilation: Polish Immigrants in Iceland, ritstj. Malgorzata
Budyta-Budznska, Varsjá: Wydawnictwo naukowe Scholar, 2011, bls. 18–28.
ÚTLEnDInGAR, nEGRASTRÁKAR oG HRYðJUVERKAMEnn