Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 170
169
semi. Í viðtölum mínum við Litháa á Íslandi komu þessar tengingar skýrt
fram. Viktoría, sem hefur búið á Íslandi í rétt rúmlega 10 ár, segir að það
eina sem Íslendingar viti um Litháen sé að þar eru „glæpamenn, og […]
[maður] verður að passa sig og allt skítugt og bara allt svona dökkt“. Þegar
ég spurði Gretu, 35 ára konu sem hefur búið á Íslandi í 11 ár, hvernig hún
myndi lýsa viðhorfum Íslendinga til Litháa svarar hún stutt og laggott með
setningunni: „Helvítis útlendingurinn.“ Biruté segir að Íslendingum líki
ekki við þá sem koma frá útlöndum og hún endurtekur orð þeirra eins og
þeim væri beint að henni: „Við erum ekki hrifin af veru þinn hér því þú
ert að stela, þú ert ekki að vinna, þú átt fjölskyldu og ég veit ekki hvað.“
Hún bætir við: „Kannski eru margir frá útlöndum ekki að vinna hérna en
ég á … allir mínir vinir eru að vinna.“ Athygli vekur að flestir þeir sem
talað var við frá Lettlandi virtust ekki upplifa jafn mikla fordóma og þeir
sem áttu uppruna sinn að rekja til Litháen. Það endurspeglar hvernig fólk
frá austur-evrópskum löndum hefur ekki allt verið sett í sama bás og að
þar sé um ákveðið stigveldi að ræða þar sem stærstu hóparnir frá Póllandi
og Litháen virðast hafa verið líklegri en aðrir hópar frá Austur-Evrópu að
mæta neikvæðum og fordómafullum viðhorfum.58
neikvæðar umræður um múslima hafa jafnframt verið sýnilegar á Íslandi
síðastliðin ár og þar má einnig sjá menningarleg rök í forgrunni, þrátt fyrir
að þau birtist á annan hátt en í umræðunni um Litháa og Pólverja. Sjá
má áherslu á vestræn gildi sem þurfi að vernda gegn „fjölmenningu“ og
„múslimum“.59 Fordómar í garð múslima eiga sér langa sögu í Evrópu
en jukust eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum árið 2001 og eru
gjarnan í Evrópu, eins og á Íslandi, samtengdir umræðu um „vandamál“
fjölmenningarlegs samfélags.60 Þessi áhersla er oft kynjuð þar sem mús-
limakonur birtast gjarnan í umræðunni sem varnarlausar og karlmenn
sem ofbeldisfullir hryðjuverkamenn.61 Úttekt Mannréttindaskrifstofu
Reykjavíkurborgar á hatursumræðu í ummælakerfum netfréttamiðla á
58 Viðtöl tekin í tengslum við verkefnið Íslensk sjálfsmynd í kreppu.
59 Kristín Loftsdóttir, „Hlutgerving íslenskrar menningar: Samfélagsleg umræða um
grunnskólalögin, trúarbrögð og fjölmenningarlegt samfélag“, Skírnir, 185 (haust)
2011, bls. 87–104.
60 Javaid Rehman, „Islam, ‘War on Terror’ and the Future of Muslim Minorities in the
United Kingdom: Dilemmas of Multiculturalism in the Aftermath of the London
Bombings“, Human Rights Quarterly, 29 (4) 2007, bls. 831–878.
61 Lila Abu-Lughod, „Do Muslim women really need saving? Anthropological reflec-
tions on cultural relativism and its others“, American Anthropologist, 104 (3) 2002,
bls. 783–790.
ÚTLEnDInGAR, nEGRASTRÁKAR oG HRYðJUVERKAMEnn