Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 176
175
sinn garð og annarra ungmenna í desember árið 2012. Maðurinn veittist
að ungmennunum og hrópaði að þeim grófar svívirðingar, án nokkurr-
ar forsögu. Samkvæmt frétt DV um málið 5. desember sagði maðurinn
meðal annars að ungmennin hefðu komið með svínaflensuna til landsins
og kallaði þau Kínverja ásamt því að hóta slagsmálum.77 Í þessu tilfelli var
almennt ekki sett spurningarmerki opinberlega við það hvort hér væri um
að ræða kynþáttafordóma eða ekki, heldur var hegðun mannsins harðlega
fordæmd af flestum og skýrð sem kynþáttafordómar sem ættu ekki að
líðast í íslensku samfélagi. Talað var um að maðurinn væri líklega „ekki í
lagi“; hann væri „vanheill“ eða sjúkur á einhvern hátt. Þrátt fyrir að slík
fordæming kynþáttafordóma sé mikilvæg, má einnig velta fyrir sér hvort
hluti af henni sé jafnframt að halda í þá hugmynd að á Íslandi séu ekki
kynþáttafordómar. Kynþáttafordómum er þarna stillt upp sem athöfnum
eða hugmyndum einstaklinga en því er ekki velt upp að hvaða leyti þeir
endurspegli fordóma í íslensku samfélagi. Mótmæli gegn kynþáttafordóm-
um einstaklinga, sem um leið eru skilgreindir sem óeðlilegir á einn eða
annan hátt, ógna þannig ekki þeirri hugmynd að Ísland sé í raun og veru
aðskilið frá voðaverkum fortíðar heldur styður þá hugmynd að kynþátta-
hyggja sé eitthvað útlent sem þurfi að berjast gegn. Að sumu leyti má líta
á slíkar fordæmingar á kynþáttafordómum einstaklinga sem „ritúalískar“
að því leyti að þær eru viðleitni til að endurskapa ráðandi sýn og sam-
félagsgerð. Þó mátti í einstaka athugasemdum sjá fólk velta fyrir sér hinu
stærra samhengi. Þannig segir einn maður í athugasemd við DV-fréttina
að þessi hegðun sé ekki dæmigerð fyrir daglegt líf og skrifar jafnframt:
„nú er þriðja kynslóð innflytjenda á leiðinni og við þurfum virkilega að
gera hreint fyrir okkar dyrum. Viðhorfin hér eru brengluð til innflytjenda-
mála [...].“ 78
Margir þeirra Íslendinga sem ég tók viðtöl við í tengslum við endur-
útgáfu Negrastrákanna minntust á fordóma í garð fólks frá Póllandi og
öðrum Austur-Evrópulöndum og lögðu áherslu á mikilvægi þess að berj-
ast gegn slíkum fordómum. Í einum rýnihóp, þar sem rætt var við fólk í
tengslum við endurútgáfu Negrastrákanna, vildi einn viðmælandi til dæmis
vekja sérstaka athygli á því „að fordómarnir snúi ekki síður gagnvart“
77 Ásta Sigrún Magnúsdóttir, „Kynþáttaníð í Smáralind: „Þið eruð öll sama draslið
maður““, DV, 5. desember 2012, sótt 4. mars 2014 af: http://www.dv.is.
78 Gunnar, 6. desember, 2012, athugasemd við fréttina Kynþáttaníð í Smáralind: „Þið
eruð öll sama draslið maður“.
ÚTLEnDInGAR, nEGRASTRÁKAR oG HRYðJUVERKAMEnn