Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 189
188
margslungnari höfundur en svo. Góðborgaranum Strepsíadesi (sem sumir
telja að standi fyrir Períkles í verkinu) finnst sér ógnað. Hann grípur til
örþrifaráða og drepur Sókrates í eldi fyrir að kenna hættulegar skoðanir
og aðferðir. Sá sem blindast af glópagulli breytist í morðingja þegar hann
fær sýnina á ný.
Skopleikir og stjórnmál í Aþenu seinni hluta 5. aldar f.o.t.
Aþena var menningarlegur suðupottur og tilraunastofa. Hún var auðug og
þangað lá stöðugur straumur af fólki og hugmyndum. Períkles var fremst-
ur meðal jafningja. Hann stjórnaði uppbyggingu Akrópólishæðarinnar,
bauð til sín heimspekingum og öðrum fræðimönnum og skipulagði hernað
Aþeninga í langvinnu stríði við Spartverja (431-404) sem þeir að lokum
töpuðu. Stærsta tilraunin var lýðræðið. Þó konur, þrælar og útlending-
ar hefðu ekki aðgang að stjórnmálum þá var lýðræðið sem Aþeningar
stunduðu mjög róttækt. Allir borgarar gátu tekið þátt í þingstörfum og
dómstörfum, valið var í flest embætti með hlutkesti (herforingjar, eins
og Períkles, voru þó kosnir) og ríkir sem fátækir áttu jafnan rétt á þátt-
töku. Þetta olli spennu í samfélaginu sem stöðugt var verið að vinna úr.
Leikhúsið var vettvangur úrvinnslu bæði í harmleikjum og skopleikjum.
Flest bendir til að háir sem lágir hafi sótt leikhúsið seinni hluta fimmtu
aldar. Almennur aðgangseyrir var ekki á færi fátækra en í staðinn gátu þeir
fengið ódýr eða ókeypis sæti. Útlendingar, þrælar og konur voru meðal
áhorfenda sem gerði leikhúsið að breiðari vettvangi fyrir samfélagsum-
ræðu en þingið. Smekkur almúgans var annar en aðalsins og eitt af því
sem almúginn kunni að meta var að sjá valdamenn og fólk af æðri stéttum
dregið niður í svaðið og gert að aumingjum og vesalmennum á sviði. Í Um
skáldskaparlistina greinir Aristóteles harmleiki frá skopleikjum með því
að segja hina fyrrnefndu sýna „meiri menn“ en hina síðarnefndu „minni
menn en þá sem við eigum að venjast“ (kafli 2). Hann tengir þennan mun
við hugarfar og eðli skáldanna. Hinir alvörugefnu líkja eftir fögrum dáðum
og gerðum „en hinir óvandaðri eftir gerðum verri manna“ (kafli 4). Í
fimmta kafla segir hann um skopleikinn (ísl. þýð. Kristján Árnason):
Skopleikurinn er, eins og við höfum sagt, eftirlíking fólks af lakara
tagi, en ekki vonds að öllu leyti, heldur er hið spaugilega tegund
ljótleika. Það felst í einhverju misferli eða lýti, sem er að vísu sárs-
aukalaust og skaðlaust, eins og sést strax á því, að gríma skopleiksins
er ljót og afskræmd, en sýnir ekki sársauka.
EIRÍKUR SMÁRI SIGURðARSon