Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 190
189
Ljótleikinn er upphafinn á kostnað hins fagra og góða og vissulega velta
„gömlu skopleikirnir“ (þ.e. Aristófanes), sem Aristóteles er hér fyrst og
fremst að vísa í, sér upp úr ljótleikanum. Í texta, búningum, grímum og
látbragði er ljótleikinn settur á svið. Kómík Aristófanesar er nátengd lýð-
ræðissamfélagi þar sem háir og lágir koma saman til að taka ákvarðanir um
málefni ríkisins (sbr. kenningu Bakhtins um gróteskuna og hlátur karni-
valsins sem leið til að sigrast á jarðnesku valdi).
Leneuhátíðin 425 f.o.t.
Elsta varðveitta verk Aristófanesar, Akkarníarnir, er sett á svið á Leneu-
hátíðinni þar sem það vinnur fyrstu verðlaun. Verkið byggir á einfaldri en
róttækri hugmynd, eins og verk Aristófanesar almennt. Aþena hefur verið í
stríði við Spörtu frá 431, Períkles er dáinn (lést úr skæðri pest sem herjaði á
Aþeninga frá 430) en seinni kona hans, Aspasía, lifir enn ásamt syni þeirra,
Períklesi yngri. Söguhetja verksins, Díkæopólis (orðið þýðir réttlátt ríki),
semur aleinn frið við Spartverja á meðan restin af borgríkinu er í stríði við
þá. Aristófanes heldur þessum þræði allt til enda og í niðurlagi verksins er
Díkæopólis alsæll í allsnægtum víns og matar á meðan aðrir halda áfram
að þjást. Maðurinn nýtur þess til fulls að vera í friði á meðan samborgarar
hans líða fyrir stríðið en hann stendur við sitt og svarar fullum hálsi þeim
sem gagnrýna hann fyrir heigulsskap, landráð og hvað annað sem hægt
er að tína til. Hann leyfir sér meðal annars að efast um lögmæti stríðsins
og telur Períkles – sem leiddi Aþeninga fyrstu árin – hafa farið í það til að
geðjast konu sinni, Aspasíu, af tómri greddu.
Meðal þess sem hratt stríðinu af stað voru deilur við borgríkið Megöru
á Pelopsey. Períkles hafði fyrirskipað viðskiptaþvinganir gegn Megöru
sem Spartverjar fóru fram á að yrði létt en Aþeningar neituðu. Söguhetjan
Díkæopólis hefur aðra skýringu á því af hverju Períkles fór í stríð við
Megöru. nokkrir ungir menn fóru þangað á fylleríi og námu á brott hór-
una (g. porne) Símæþu. Í hefndarskyni rændu Megarar tveimur hórum (g.
pornai) af Aspasíu. Þrjár hórur voru því ástæðan fyrir því að Grikkir fóru í
stríð hverjir við aðra því hinn „ólympíski Períkles“ lét þrumum og elding-
um rigna yfir Grikkland í kjölfarið (Akkarníarnir 523–529). Þessar sögur
af hóruránum eiga sér djúpar rætur í ýmsum upprunasögum úr grískri
goðafræði en vísa þó fyrst og fremst til fyrstu þriggja kafla í Rannsóknum
Heródótosar þar sem höfundur spyr um orsakir þess að Persar og Grikkir
fóru í stríð hverjir við aðra (árin 490-479) og byrjar á að lista upp gagn-
AÞENA HEBDO