Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 191
190
kvæm rán á konum (Ió, Evrópu, Medeu og Helenu fögru). Aristófanes
vinnur úr sögunni á sinn hátt. Í stað goðsögulegra kvenna dregur hann
hórur fram á sjónarsviðið. Það er ekkert göfugt eða teprulegt við orðið
porne – það er notað sem grófyrði um hórur. Aspasía hafði orð á sér fyrir að
vera hórumamma en oftast var hún kennd við fylgikonur (g. hetairai) sem
þóttu talsvert fínni en hórur. Þegar Aristófanes vísar í hórur sem ástæðu
stríðsins þá gæti hann haft Aspasíu í huga sem eina af þeim. Árið 425 hefur
Períkles verið látinn í um fjögur ár og Aspasía er gift öðrum manni. Senan
er grótesk og hún gengur nærri þekktum einstaklingum lífs og liðnum.
Stríðið er sagt hafa verið af annarlegum hvötum – Períkles er að þóknast
nýrri eiginkonu sinni sem kann ýmislegt fyrir sér í holdsins lystum – og
þeim er lýst á eins ruddalegan hátt og hægt var (flestar aðgengilegar þýð-
ingar á Aristófanesi eru hins vegar mjög teprulegar). En það má alltaf
ganga lengra.
Keppinautar Aristófanesar
Á Leneuhátíðinni 425 sigraði Aristófanes þá Kratínos og Evpólis. Ekkert
verka þeirra er varðveitt en brot úr verkunum finnast hins vegar víða.
Plútark vitnar í þá báða í ævisögu sinni um Períkles þar sem þáttur Aspasíu
er stór. Kratínos, sem var eldri en Aristófanes, segir í verkinu Keironarnir
(sett upp um 435 á meðan Períkles er enn á lífi) að Aspasía hafi verið
„rassgatsgetin (g. katapugosune), blygðunarlaus gleðikona“. Evpólis, sem
var yngri, skrifaði og setti upp verkið Demoi (um 412 þegar Aspasía er
hugsanlega látin). Í því vinnur hann úr klassískum senum þar sem hinir
dauðu eru heimsóttir. Mýnonídes nokkur heimsækir Hadesarheim og hitt-
ir Períkles eldri, sem hefur legið í gröf í mörg ár. Períkles spyr um son sinn
með Aspasíu: „Lifir bastarðurinn minn?“ – Aspasía var ekki aþensk og því
er hann kallaður bastarður. Mýnonídes svarar: „Já, og hann væri löngu
kominn til manns ef hann hefði ekki óttast illt af hórunni.“ Móðirin var
hóra og drengurinn, bastarðurinn og hóruunginn, gat ekki brotist undan
þessari fortíð og varð þess vegna mannleysa. Tækin til að draga fólk niður í
svaðið voru grótesk. Lifandi og dauðir voru svívirtir og engum var hlíft.
Charlie Hebdo 2015
Forsíða Charlie Hebdo, journal irresponsable, 14. janúar 2015 er teiknuð af
Luz. Á henni er einföld teikning af Múhameð sem heldur á spjaldi með
EIRÍKUR SMÁRI SIGURðARSon