Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Page 194
193
Árið 1979 samþykkti Alþingi Alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg
réttindi. Í 2. grein þess samnings segir: „Allur málflutningur til stuðnings
hatri af þjóðernis-, kynþáttar- eða trúarbragðalegum toga spunnið sem
felur í sér hvatningu um mismunun, fjandskap eða ofbeldi skal bannaður
með lögum.“ Mörg ríki sem gengist hafa undir samninginn taka hugmynd-
ina sem í málsgreininni felst mjög alvarlega, til dæmis eru víða ströng við-
urlög við því að tjá þá skoðun að Helförin hafi ekki átt sér stað í raun og
veru. En hvenær hvetur hatursfull málgjörð til ofbeldis eða fjandskapar?
Þessari spurningu er talsvert flóknara að svara en fólki gæti virst við fyrstu
sýn og er hún sérstaklega áleitin í ljósi árásarinnar á ritstjórn Charlie Hebdo
og matvöruverslunar í eigu gyðinga í París og umræðunnar sem spannst í
kjölfarið.
Kenning um ofbeldishvetjandi málgjörðir
Samkvæmt ætlunarhyggju (e. intentionalism) um merkingu í mannlegu
máli ákvarðast merking alfarið af meiningu mælandans hverju sinni. Það
að meina eitthvað með málgjörð (e. speech act) er skilið sem hugarástand
sem felur í sér tvær nátengdar ætlanir. Upplýsandi ætlun (e. informative
intention) er einfaldlega sú ætlun að hafa tiltekin áhrif á hugarástand áheyr-
andans – oft í því augnamiði að breyta skoðunum eða hegðun viðkomandi.
Samskiptaætlun (e. communicative intention) er hins vegar sú ætlun mæl-
andans að gera áheyranda ljóst að hann hafi ákveðna upplýsandi ætlun.1
1 Sbr. Robyn carston, Thoughts and Utterances: The Pragmatics of Explicit Comm-
unication, oxford: Blackwell, 2002. Paul Grice, Studies in the Way of Words, cam-
bridge, MA: Harvard University Press, 1989. Dan Sperber & Deirdre Wilson,
Relevance: Communication & Cognition, 2. útg, oxford: Blackwell, 1995.
elmar geir unnsteinsson
Hvenær hvetja orð til ofbeldis?
Ritið 1/2015, bls. 193–200