Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Síða 207
206
myndir og fordóma getur jafnvel í mörgum tilfellum haft það að markmiði
að fletta ofan af slíkum fordómum og stuðla að gagnrýnum samræðum við
samfélagið. Kannski er ekki aðalmálið hvort þeir sem búa til brandara séu
að gera jafnlítið úr öllum hópum eins og stundum má heyra í umræðunni í
dag og þá séu fordómar einfaldlega í fínu lagi heldur hvað brandaranum er
ætlað að gera, hvert er markmið hans, hver er staða þess sem hann beinist
að og hvaða stærra sögulega samhengi tilheyrir brandarinn. Umræða um
kynþáttafordóma og grín gengur oft út á að það „megi“ ekki segja hitt og
þetta. Í staðinn fyrir að einblína þannig á að það megi ekki segja hitt og
þetta eða nota svona eða hinsegin orð eða myndmál, má spyrja af hverju
við notum ákveðnar ímyndir eða hugtök? Af hverju viljum við nota hug-
tök sem hafa sögulega merkt einstaklinga á þann hátt að þeir nutu ekki
grundvallarmannréttinda? Af hverju viljum við nota myndir eða hugtök
sem ákveðnum hópi í samfélaginu finnst lítilsvirðandi og tengjast sögu
fordóma í samtíma eða fortíð? notum við rasistahugtök eða ímyndir í
sjálfsgagnrýninni tilraun til að draga fram nýja fleti á samtímanum eða
er verið að segja sama brandarann aftur og aftur – brandara einstaklinga
sem hafa ávallt búið í góðu skjóli frá því ofbeldi sem fylgir kynþáttafor-
dómum? Hér þarf einnig að hafa í huga, eins og Gary Younge fréttaritari
The Guardian bendir á í sambandi við myndirnar af Múhameð spámanni
í Danmörku árið 2005, að spurningin sé ekki hvort draga eigi línu á milli
þess sem er leyfilegt eða ekki, heldur miklu frekar hvar eigi að draga hana.
Í öllum Evrópulöndum eru málfrelsinu settar lagalegar skorður og ákveðin
lög og viðmið eru til um hvað sé eðlilegt að komi fram á prenti.18
Áherslan á að nú sé komið nóg af pólitískri rétthugsun og tillitsemi við
innflytjendur er að sama skapi algjörlega á skjön við reynslu innflytjenda.
Rannsóknir erlendis benda skýrt á þá miklu fordóma sem múslimar verða
fyrir í Evrópu.19 Innflytjendur hér á landi eru ekki síður skotspónn beinna
fordóma. Hér virðist oft lítil feimni vera við að segja hvaðeina sem fólki
dettur í hug. Eins og Wolf bendir á skapa nöfn ákveðna félagslega flokka.
Wolf talar um að það sé vel þekkt að heimurinn hafi um langa hríð
einkennst af tengslum en eigi að síður byggja umræður samtímans oft á
stöðluðum merkimiðum þar sem tengslum og sögu er ýtt út úr mynd-
18 Gerald Early, „Adventures in the colored Museum: Afrocentrism, Memory, and
the construction of Race“, American Anthropologist, 100 (3) 1998, bls. 703–710,
hér bls. 705.
19 Liz Fekete, „Anti-Muslim Racism and the European Security State“, Race Class,
46 (3) 2004, bls. 3–29.
KRiStín loFtSdóttiR