Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Síða 262
261
allt þar til nýlega, hefur afstæðishyggja mannfræðinga haft íronískan undir-
tón vegna beinnar þátttöku þeirra í því verkefni að siðmennta eða „betr-
umbæta“ líf innfæddra á einhvern máta. Raunar hefur um langt skeið verið
til afkimi innan mannfræðinnar sem kannar íroníuna sem felst í trúboðinu
og mismunandi sviðum þess – afkimi sem sameinar nú krafta sína hinu
stærra þverfaglega sviði nýlendufræða.52
Þegar sjónum er beint að þeim tegundum íroníu sem hugmyndin um
betri tíma og verri felur í sér vakna alvarlegustu spurningarnar um pólitík
íroníunnar; þ.e. hvort raunverulegar afleiðingar íroníu eru fólki hvatning
til að breyta heiminum eða hvort niðurrifsáhrif hennar séu slík að fólk
missi trúna og hverfi frá því að vinna að nokkrum breytingum til hins
betra. Þótt ekki verði leyst úr þessu álitaefni hér er rétt að hafa í huga í
fyrsta lagi að jafnvel þótt íronísk vitund um mótsagnirnar sem felast í köll-
uninni til mannúðar- eða betrunarstarfs kunni að hafa dregið úr sumum, er
áfram að finna (að minnsta kosti í Bandaríkjunum) öflugan og trúverðugan
stuðning við „umbætur“ jafnt heima fyrir sem utan landsins.53 Einnig má
halda því til haga að íronía hefur nógu oft verið álitin „vopn hinna veiku“54
og vettvangur hinna óæðri til að beita andmælum, ímynda sér aðra kosti,
52 Sjá til dæmis James W. Fernandez, „The Sound of Bells in a christian country: In
quest of the historical Schweitzer“. The Massachusetts Review vor/1964, bls. 537–62;
T. o. Beidelman, Colonial Evangelism: A Socio-historical Study of an East African
Mission at the Grassroots. Bloomington: Indiana University Press, 1982; Mary
Taylor Huber, The Bishops’ Progress: A Historical Ethnography of Catholic Missionary
Experience on the Sepik Frontier. Washington, D.c.: Smithsonian Institution Press,
1988; Tensions of Empire: Colonial Cultures in a Bourgeois World, ritstj. Frederick
cooper og Ann Laura Stoler. Berkeley: University of california Press, 1997); Mary
Taylor Huber og nancy Lutkehaus, „Gendered Missons at Home and Abroad,“
inngangur að Gendered Missions: Women and Men in Missionary Discourse and Practice.
Ann Arbor: University of Michigan Press, 1999.
53 Við höfum, meðal annars, í huga viðvarandi stuðning innanlands við frumkvæði
Bandaríkjanna á mannréttindasviðinu og opinbera viðleitni til að breiða út lýðræði
og aðra þætti bandarískrar menningar sem og, heima fyrir, útbreiddan áhuga
mennta- og háskólanema á samfélagsþjónustu, hina stöðugu eftirspurn eftir borg-
arlegri dyggð og annað álíka.
54 Hugtakið kemur úr Vopn þeirra valdalitlu: Hversdagslegar birtingarmyndir af andstöðu
almúgans (Weapons of the Weak: Everyday Forms of Peasant Resistance. new Haven:
Yale University Press, 1985) eftir James Scott, því fyrsta í flokki verka sem eiga að
skrá þær aðferðir sem lægra settir hópar beita til að þola undirskipun sína og boða
úrbætur á stöðunni sem og almenna andstöðu við ráðandi öfl. Sjá Jonathan Spencer,
Resistance. Encyclopedia of Social and Cultural Anthropology, ritstj. Alan Barnard og
Jonathan Spencer. London: Routledge, 1996, 488–89, þar sem finna má stutta
frásögn af þessum mannfræðiverkum.
„MAnnFRÆðI ÍRonÍUnnAR“