Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Side 283
282
ust á síðari hluta 12. aldar (ekki 13. öld eins og Ragnhildur segir: RH272),
og sagan er talin vera skráð aðeins nokkrum áratugum seinna, snemma á
13. öld.8 Um þessa atburði hefur örugglega verið tíðrætt í héraðinu og
óvænlegt fyrir höfund sögunnar að hætta á að áheyrendur væru sífellt að
leiðrétta hann þegar hann læsi söguna upp fyrir hóp fólks. Um þetta get ég
ekki vitað, en fremur treysti ég Guðmundar sögu dýra en að álykta um ástir
Íslendinga af sögu Agnesar meyjar, fjölskyldu Hrólfs kraka eða ævintýrum
Vilmundar viðutan.
Hitt atriðið sem mig langar að drepa á fjallar um afstöðu mína til
fræðirita. Ragnhildur finnur að því að ég noti ekki rannsóknir annarra
fræðimanna, einkum verk sænska bókmenntafræðingsins Daniels Sävborg.
Auðvitað nota ég stórvirki Sävborgs og tek það greinilega fram: „Bók
Sävborgs hefur þannig orðið mér afar gagnleg“ segi ég á einum stað
(GK42), og nafn hans er nefnt á 28 blaðsíðum í bók minni samkvæmt
bendiskrá (GK376). Meginniðurstöður hans dreg ég saman í blaðsíðu-
löngum texta (GK41–42). Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég kom
efninu í 608 blaðsíðna bók hans ekki fyrir í 303 blaðsíðna bók minni (báðar
tölurnar miðast við meginmálssíður). Enda er ég að skrifa sagnfræði en
Sävborg bókmenntasögu eins og ég nefni (GK41). Um riddaralegan kveð-
skap segir hann til dæmis að hann „föredrar att hålla relationen mellan fik-
tion och verklighet utanför kapitlets undersökningar.“9 En það er einmitt
þetta samband sem ég hef einkum áhuga á þegar ég nota bókmenntaverk
sem heimildir. Ragnhildur virðist ekki viðurkenna að það sé hægt, en til
hvers hefði ég þá átt að nota fornaldarsögur og riddarasögur?
Annar ágreiningur okkar Ragnhildar um fræðirit snýst um bókina Fjarri
hlýju hjónasængur eftir Ingu Huld Hákonardóttur. Fyrst verð ég að segja að
það lýsir furðumikilli kyrrstöðuhugsun að finnast líklegt að bók sem kom
út árið 1992 geri óþarft að gefa út bók um sama efni 21 ári síðar, jafnvel
þótt bækur okkar væru um sama efni. En hitt skiptir meira máli að bók
Ingu Huldar hefur aðeins 40 blaðsíðna langan aðdraganda sem fjallar að
mestu leyti (en ekki öllu) um það tímabil sem ég skrifa um á 300 blaðsíðum
8 Jón Jóhannesson, „Um Sturlunga sögu,“ Sturlunga saga II. Reykjavík: Sturl-
unguútgáfan, 1946, bls. xxx–xxxi. Íslensk bókmenntasaga I. Vésteinn Ólason ritstjóri.
Reykjavík: Mál og menning, 1992, bls. 316 (Guðrún nordal).
9 Daniel Sävborg, Sagan om kärleken. Erotik, känslor och berättarkonst i norrön litteratur.
Uppsala: Uppsala universitet, 2007, bls. 206nm.
gunnaR KaRlSSon