Tímarit UNIFEM - 01.01.2004, Side 36

Tímarit UNIFEM - 01.01.2004, Side 36
Réttur kvenna til eignar og arfs er fótum troðinn um allan heim. Hér fjallar Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingiskona um landréttindi kvenna, jafnrétti kynjanna og samband ríkra og fátækra. Rétturinn til þess að eiga land og ráðstafa því er víða um heim bundinn við karla og langt frá því að vera sjálfsagður réttur kvenna. Þetta er kald- ranaleg staðreynd, m.a. í ljósi þess að það eru konurnar sem yrkja landið – 70% þeirra sem starfa við landbúnað eru konur – og gera þar með öðrum kleift að lifa af því. En þrátt fyrir það njóta þær víða lítilla sem engra réttinda og eiga jafnvel á hættu að vera flæmdar burtu af heimilum sínum ef eiginmaður fellur frá. Undanfarin ár hafa æ fleiri lagt baráttunni fyrir rétti kvenna til eignar og arfs lið, bæði einstaklingar, félagasamtök og alþjóðastofnanir, enda er hún samtvinnuð baráttunni gegn fátækt og fyrir jöfnum rétti karla og kvenna um allan heim. Ástæður þessa misréttis eru margvíslegar og eiga rætur í aldagömlu viðhorfi feðraveldisins til kvenna. Löggjöf mismunar konum bæði leynt og ljóst í þessum efnum, auk þess sem gamlar hefðir ganga oft þvert á hagsmuni og réttindi kvenna þótt á því séu undantekningar. Ólæsi veldur því einnig að konur þekkja ekki réttindi sín og það er auðvelt fyrir óprúttna landeigendur eða ættingja að hafa af þeim jarðir sem þær eiga með réttu. Ófriður ógnar víða lífsbjörg smábænda og útbreiðsla alnæmis, t.d. í sunnanverðri Afríku, hefur haft hrikaleg áhrif á stöðu kvenna í þessu tilliti sem öðru. Landið undirstaða velferðar Eignar- og umráðarétturinn yfir landi er enn hornsteinn velferðar og félagslegs öryggis fátækra smábænda víða um heim, ekki síst í Afríku og Asíu. Sjálfsþurftarbúskapur á litlum landspildum er oftar en ekki það eina sem gerir fátækum fjölskyldum kleift að sjá sér farborða. Nokkrar hænur, geit eða kýr og skiki þar sem hægt er að rækta korn eða grænmeti geta gert gæfumuninn og forðað fólki frá algjörri örbirgð. Við þessar aðstæður er landið undirstaða velferðar, líkt og menntun er undirstaða velferðar í samfélagi okkar og forsenda þess að fólk geti lifað við sæmilegt öryggi og ef til vill náð að senda börn sín í skóla. Vert er að hafa í huga að ekki er nema rúm öld síðan líf Íslendinga byggðist á svipuðum grunni, þ.e. búskap þorra landsmanna ásamt sjósókn, sem þó var aukageta. Saga Íslands ætti að auka okkur skilning á aðstæðum og erfiðleikum þeirra sem draga fram lífið á gæðum landsins. Réttleysi kvenna við fráfall maka getur valdið því að grundvellinum er kippt undan lífi allrar fjölskyldunnar og mæður og börn verða að öreigum á svipstundu. Í Namibíu, en þar er alnæmi algengasta dánarorsök fólks, búa þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar í dreifbýli. Af sjálfu leiðir að rétturinn til þess að eiga og erfa jörðina verður að teljast grundvöllur þess að þeir sem eftir lifa geti séð sér farborða. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, fyrr á þessu ári vakti Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) athygli á nauðsyn þess að vernda eignarrétt kvenna í samfélögum sem hafa orðið illa úti vegna alnæmis. Niðurstöður rannsóknar sem FAO gerði sýna að 40% kvenna sem misst höfðu eiginmenn sína höfðu séð á bak nautgripum og verkfærum í hendur ætt- ingja í kjölfarið og margar höfðu verið gerðar brottrækar af heimilum ásamt börnum sínum. Tryggja þarf réttindi kvenna um allan heim til þess að eiga og ráðstafa landi Landið er hans en ekki hennar Svo virðist sem baráttan fyrir rétti kvenna til eignar og arfs nái nú augum og eyrum almennings og ráða- manna, ekki síst fyrir tilstilli rannsókna og verkefna á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna og félaga- samtaka á sviði þróunar- og mannúðarmála. 36

x

Tímarit UNIFEM

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit UNIFEM
https://timarit.is/publication/1156

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.