Félagsbréf - 01.12.1959, Side 11

Félagsbréf - 01.12.1959, Side 11
FÉLAGSBRÉF 9 Þú pílagrímur sannleikans í sálu mér, ég vík af fjöldans förnu braut og fylgi þér. Þú greiðir allri blindri dýrkun banahögg. Þú vökvar skilningstréð með þinni táradögg. Það er einkennilegt til þess að hugsa eftir á, að í þessum hendingum hins rúmlega tvítuga æskumanns felst spásögn, lífsviðhorf og stefnuskrá heillar ævi. Og hitt þó enn merkilegra, að honum er þá þegar alveg ljóst, hvað felst í því hlutskipti, sem hann hefur kosið sér. Efinn, sem gerir hann að rýnanda, er honum pílagrímur sannleikans í sálinni. Um leið og hann gengur honum á hönd, kýs hann sér hlutskipti einfarans á meðal mann- anna. Skjól samstöðunnar, hópsins, er fyrirmunað þeim, sem ekki getur tekið þátt í dýrkun hans, blindri eða sjáandi, og hann veit, að þetta er þjáninga'leið. Táradöggvar einar eru þess umkomnar að vökva tré skiln- ingsins. Mér kann að missýnast um þetta, en ég sé ekki betur, en að hér hafi Magnús raunar stikað út þann feril, sem hann gekk síðan ævinnar dag á enda. Greind hans er svo egghvöss, rýni hans svo djúp, að hann tekur mið sín þegar í öndverðu í svo fullkominni samhljóðan við gáfnafar sitt, skapferð og innri gerð, að hann þarf aldrei þaðan af að breyta um stefnu, taka ný mið — og hefði vísast ekki getað það. Hinu get ég bætt við í leiðinni, að þetta er ekki í eina skiptið, sem Magnús mælti þau orð ungur, sem oss varð ljóst eftir á, að urðu síðan að spásögn, bæði um menn og málefni, sjálfan hann og kunningjana. Kann ég þess nokkur dæmi, þó að hér sé ekki tóm til að rekja. Magnús Ásgeirsson fæddist 9. nóv. 1901 að Reykjum í Lundarreykjadal, en þar bjuggu búi sínu foreldrar hans Ásgeir Sigurðsson og Ingunn Daníels- dóttir. Mér er alls ókunnugt um þau og æskuheimili Magnúsar, utan það eitt, að þau voru hvort um sig talin dugnaðar- og gáfufólk. Öll þau ár, sevn með okkur Magnúsi voru náin dagleg kynni, var hann jafnan mjög fámáll um æskuheimili sitt og öll einkamál. Kynni okkar urðu fyrst síðla vetrar 1922. Við vorum þá báðir að lesa undir stúdentspróf utanskóla, tók- um að lesa saman og gerðum það dag hvern unz prófinu lauk í júnílok.

x

Félagsbréf

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Félagsbréf
https://timarit.is/publication/1060

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.