Orð og tunga - 01.06.2011, Blaðsíða 69
Guðrún Kvaran: Hallgrímur Scheving og tökuorðin
59
frá því snemma á 17. öld en hin um dessast frá lokum 18. aldar. Ekkert
bendir til þess hjá ÁBIM að dessa sé tökuorð heldur tengir hann hana
sögninni að detta.
Sögninni dikta er bætt við á spássíu hjá HSch en engin merking er
við hana né heldur orðið diktur. Því er ekki unnt að geta sér til hvaða
merkingu hann hafði í huga. BH gefur bæði merkinguna 'dictare,
siger en til der skriver, dicterer' og ‘fingere, commentari, digter, sætter
op'. Við nafnorðið gefur BH einnig tvær merkingar 'commentum, en
Logn, en Digt' og 'poema, et Digt'. Hjá ÁBIM er merking sagnarinnar
sögð: 'semja, yrkja; skrökva upp; mæla fyrir;' og nafnorðsins 'kvæði;
upplogin frétt'. Hann telur orðin líklegast tökuorð úr miðlágþýsku
enda bæði gömul í íslensku. Elsta dæmi í Rm er frá miðri 16. öld.
Hjá HSch stendur: „ditta að einu; ísl. gjöra við, lagfæra". Hjá BH er
gefið sambandið ditta að og merkingin sögð 'tætter, tilstopper Sprækker
og Aabninger'. ÁBIM skrifar sögnina með -y- í merkingunni 'lagfæra,
lappa upp á; troða í, þétta'. í Rm er hún bæði fletta með -i- og -y- og
eru elstu dæmi frá miðri 17. öld. Öll eru þau um að ditta að e-u.
Engin merking var gefin við dofníngi hjá HSch. BH segir að dofníngi
sé dofinn maður, þ.e. 'en uvirksom; it. slov, dum'. ÁBIM gefur bæði
orðið dofningi og dofnungur í merkingunni 'sljór og daufgerður maður'.
Rm hefur hvoruga myndina en dæmi eru í Tm. Samkvæmt ÁBIM er
orðið leitt af sögninni dofna 'verða dofinn eða daufur' og telur hann
það ekki eiga sér samsvörun í dönsku. Líklegra er þó að að baki liggi
nafnorðið dovning (sbr. ODS) í merkingunni 'latur maður'.
Við dokka skrifar HSch: „ísl. tvinnahespa, tvinnabenda". Sama
merking er hjá BH og vísað er í danska orðið dukke. ÁBIM tengir
nokkrar merkingar orðinu dokka: 'klampi undir þóftu; samanvafin
garnhespa; (leik)brúða; tás í vindu eða spili; tstúlka, kona (vísast
hálfkenning)'. Elsta dæmi um merkinguna 'tvinnakefli, tvinnahespa'
í Rm er frá því snemma á 19. öld. Danska orðið dukke, sem BH vísar til,
merkir annars vegar 'brúða' og hins vegar 'þráðarhespa eða -knippi'.
Dúkka er tökuorð í íslensku um brúðu og er aðlagað í rithætti danska
orðinu. ÁBIM bendir á að ein merking orðsins dokke í nýnorsku sé 'hör-
eða banddokka' og hugsanlegt að dokka í íslensku um tvinnahespu sé
þaðan komin. Orðið dokke virðist ekki til í dönsku sbr. ODS.
Orðið doppa skýrir HSch: „d. Doppe; ísl. málmbóla". Svipuð lýs-
ing er hjá BH. ÁBIM gefur fleiri merkingar en telur orðið tökuorð
úr miðlágþýsku doppe 'hylki, skál; málmbóla'. Orðið í merkingunni
'málmbóla' er gamalt í íslensku og elstu dæmi í Rm eru frá 16. öld.