Orð og tunga - 01.06.2011, Blaðsíða 159
Mörður Árnason: Ásgeir, Orðsifjabókin og ÍO 1983
149
darra, so.
Í02 darra „t (smá)sveiflast til (á ferð eða flugi) í lofti."
Osb. darra „(18. öld) 'sveiflast til á flugi (eða í lofti)'..."
Munur á merkingarskýringu frá Í02 í Osb. er smávægilegur.
Svipað er að segja um aldursvísun. Krossinn í Í02 merkir „fornt eða
úrelt mál, óbundið" (bls. XIX) og miðast við útgáfutíma bókarinnar
þannig að orð frá 18. og jafnvel 19. öld fá þetta tákn teljist þau ekki í
notkun á 20. öld. Orðsifjabók krefst meiri nákvæmni við aldursvísun
en almenn orðabók. í Osb. er krossinn skýrður „fornt mál, forn mynd,
gamalt mál" (bls. xxvi) og virðist fyrst og fremst eiga við málfæri frá
því fyrir miðja 16. öld.7
Þessi fletta er með hendi Árna Böðvarssonar í prentsmiðjuhand-
riti Í02. Líkindin í orðalagi merkingarskýringar benda þó til náinna
tengsla milli umfjöllunar í bókunum tveimur.
Tvær heimildir finnast um orðið. Sú sem nýtt virðist í bókunum
tveimur er færsla í orðabók Jóns Olafssonar frá Grunnavík: „nutare in
volatu vel motu sub per aerem. Non puto esse Danicum". Það útleggst:
Að sveiflast til á flugi eða á ferð um loftið. Tel þetta ekki vera dönsku.8
Þar sem Grunnvíkingurinn talar þarf ekki frekar vitna við. Til er
þó annar vitnisburður og eilítið eldri um sögnina og orð tengd henni,
nefnilega orðasafn Guðmundar Olafssonar fornfræðings í Svíþjóð. í
handriti orðabókar sem aldrei komst á prent gefur hann sögnina darra,
1. beygingar (þ.e. í flokki með kalla), lýsingarhátt nútíðar darrandi
og sagnarnafnorðið darran. Sögnin merkir „Tremo, agitor" - 'skelf,
iða'; lýsingarhátturinn „tremens" - 'skjálfandi'; nafnorðið „Tremor,
titubatio" - 'skjálfti, rið'. (N 2, bind IV, 2. afdeling, bls. 172,175.) Guð-
mundur var við störf í Uppsölum frá 1681 til dauðadags 1695, áratug
áður en Jón lítur dagsljós í Grunnavík. Heimildir Guðmundar fyrir
orðunum eru jafn-óljósar og Grunnvíkingsins.
Ljóst er að handrit Guðmundar er ekki haft til hliðsjónar í Í02 og
Osb. Skýring beggja bóka er þýðing á Jónstexta, og aldursvísun Osb.
á við hann, ekki safn Guðmundar. Ljósmyndir af handritinu voru
þó komnar á Orðabókina ekki síðar en 1969 (Jakob Benediktsson
1971:17).
7 Stundum táknar krossinn í Osb. raunar að orð sé ekki lengur í notkun, sbr.
umfjöllun um dolsa hér á eftir. Það virðist eiga við hér líka þótt krosslaust sé.
8 Orðið sub veldur vanda við snörunina og kynni að vera umframt. Gunnari
Harðarsyni dettur í hug að sub per eigi að lesa super, 'á, ofan á' - og super aerem þá
'í lausu lofti' eða álíka. Tölvuskeyti 8. apríl 2010.