Hjúkrun: tímarit Hjúkrunarfélags Íslands - 01.03.1984, Blaðsíða 41

Hjúkrun: tímarit Hjúkrunarfélags Íslands - 01.03.1984, Blaðsíða 41
Úrtak og heimtur Könnun sú sem hér um ræðir er úrtakskönnun sem byggir á úrtaki 468 hjúkrunarfræðinga sem valdir voru af handahófi úr félagaskrá Hjúkrunarfélags íslands. Upphaflega voru valdir 500 einstaklingar, en seinna var ákveðið að miða úrtakið við 60 ára aldur. Leiddi það til þess að úrtakið minnkaði nokkuð. Einnig fækk- aði einstaklingum í úrtaki vegna þess að nokkrum ein- staklingum, sem talið var að erfitt væri að ná til, var sleppt úr endanlegu úrtaki. Endanlegt úrtak innihélt þannig 468 einstaklinga sem leitað var til í könnuninni. Var þeim öllum sendur spurningalisti sem þeir voru beðnir að fylla út og senda til Hjúkrunarfélags íslands. Alls bárust svör frá 325 einstaklingum eða 69.4%. Eru þetta verri heimtur en búist var við fyrirfram, sérstak- lega þegar tekið er tillit til þess að haft var samband við alla þátttakendur nokkru eftir að þeim höfðu verið sendir spurningalistar. Sú staðreynd að u. þ. b. 30% úrtaksins tóku ekki þátt í könnuninni leiðir óhjákvæmi- lega til þess að niðurstöður verða ekki eins traustar og æskilegt hefði verið. Við vitum ekki hvort þeir sem ekki svara hafa sömu viðhorf og sömu skoðanir á mál- efnum hjúkrunarfræðinga og þeir sem tóku þátt í könnuninni. Þegar brottfallið verður verulegt er alltaf hætta á því að sá hópur sem ekki svarar sé á einhvern hátt frábrugðinn þeim sem það gera. I þessu sambandi er rétt að geta þess að heimtur í þessari könnun eru ekki verri en gerist og gengur í póstkönnunum af þessu tagi. Það er reyndar mjög algengt að brottfall í póstkönnunum sé mjög mikið. Bandarískar kannanir sýna að svarhlutfall er 61% eða niinna í u. þ. b. helmingi allra póstkannana sem gerðar hafa verið þar í landi á síðasta aldarfjórðungi (Heber- lein og Baumgartner 1978). Sú litla reynsla sem komin er á póstkannanir hér á landi virðist benda í svipaða átt. í könnun sem Ingibjörg R. Magnúsdóttir, deildar- stjóri í Heilbrigðisráðuneytinu, gerði á störfum hjúkr- unarfræðinga árið 1974 var svarhlutfall aðeins 28%. í fljótu bragði virðast þessar niðurstöður um heimtur í póstkönnunum benda til þess að aðstandendur þessar- ar könnunar megi vel við una. Heimtur eru þrátt fyrir allt heldur betri en gerist og gengur í könnunum af þessu tagi. En þegar nánar er að gætt kemur í ljós að þetta er lítil huggun. Kemur þar ýmislegt til. Heimtur í Póstkönnunum yfirleitt breyta engu um þá staðreynd að mikið brottfall leiðir óhjákvæmilega til þess að fyrir- vara verður að setja á allar niðurstöður. Þá sýna flestar rannsóknir að þrátt fyrir það að meðalheimtur í póst- könnunum séu slæmar er fjöldi dæma til um slíkar kannanir þar sem þátttaka nálgast 80%. Það er einkum tvennt sem virðist hafa áhrif í þá átt að auka þátttöku í póstkönnunum. í fyrsta lagi skiptir máli að hafa samband við þátttakendur, annað hvort munn- lega eða skriflega, eftir að þeir hafa fengið spurninga- listann í hendur og hvetja þá til þess að svara. Slíkur eftirrekstur leiðir yfirleitt til betri þátttöku. Eins og fram hefur komið var þetta gert í þessari könnun. Haft var samband símleiðis við nær alla sem valist höfðu í úrtakið. í öðru lagi verða heimtur betri þegar könnunin fjallar um málefni sem snerta mjög hag þátttakenda. Þeir, sem að undirbúningi þessarar könnunar stóðu, töldu að þessu skilyrði væri vel fullnægt. Þegar á þetta er litið er fyllsta ástæða til þess að vera óánægður með heimtur. í þessu sambandi er rétt að geta þess að lengd spurn- ingalista virðist ekki hafa mikil áhrif á heimtur, þ. e. a. s. heimtur verða ekki að öðru jöfnu betri því styttri sem spurningalistinn er. Erlendar rannsóknir sýna (Heberlein og Baumgartner 1978) að lengd spurninga- lista hefur engin áhrif á brottfall. Ef við lítum okkur nær þá sjáum við heldur engin merki þess að svarhlut- fall verði hærra því styttri sem spurningalistinn er. Spurningalistinn sem Ingibjörg R. Magnúsdóttir sendi hjúkrunarfræðingum árið 1974 var nánast eins stuttur og hugsast getur og samt sem áður var svarhlutfallið aðeins 28%, eins og þegar hefur verið nefnt. Nú kann einhverjum að virðast að ég geri of mikið úr þessum 5-10% sem upp á það vantar að heimtur geti talist góðar. Er þá virkilega mikill munur á könnunum sem hafa tæplega 70% þátttöku og þeim sem hafa 80% ? Eru einhver skýr rök fyrir því að draga afgerandi línu við 80% markið og segja að 80% heimtur séu góðar, en tæplega 70% heimtur séu slæmar? Ég þekki reyndar engin slík rök. Það er auðvitað matsatriði, sem er undir mörgum þáttum komið, hvað telja ber viðun- andi heimtur og hvað ekki. Það er mitt mat að þær heimtur sem hér liggja fyrir séu í lægri kanti þess sem talist getur traustur grundvöllur ályktana um hjúkrun- arfræðinga í Hjúkrunarfélagi íslands almennt. Ein leið sem gjarnan er farin til þess að meta það hvort brottfall skekkir niðurstöður er að bera upphaflega úr- takið (hér 500) saman við þá sem þátt taka í könnun- inni.*) Hér er okkur sá vandi á höndum að við vitum nánast ekki neitt um úrtakið annað en aldursdreifingu og búsetu. *) Að mörgu leyti hefði legið beinna við að bera endanlegt úrtak (468) saman við svarendur (325) en af tæknilegum ástæðum reyndist það erfitt. HJÚKRUN */m - 60. árgangur 35

x

Hjúkrun: tímarit Hjúkrunarfélags Íslands

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hjúkrun: tímarit Hjúkrunarfélags Íslands
https://timarit.is/publication/1250

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.