Orð og tunga - 26.04.2018, Síða 25
14 Orð og tunga
Það er athyglisverð tenging orðanna sproti í fornmáli og spíra í yngra
máli að ROH tilfærir tvö dæmi um orðið spíra úr Guðbrandsbiblíu,
en þeim samsvara í latnesku biblíunni sceptrum, þ.e. veldissproti, og
virga, einmitt orðið sem á miðöldum var helst þýtt sem sproti.
4 Skýringartilraun
4.1 Frá frummerkingu til varðveittra dæma
Nú er það tilgáta mín að teinungar, sem svo hafa verið nefndir hér um
hríð, hafi í fornu máli kallast sprotar, bæði eins og þeir uxu á trjánum
og eins og þeir voru nýttir til margra hluta. Það hafi verið aðalmerking
orðsins en færst yfir á sambærilega hluti úr fínna efni, sem og hvað
eina sem á latínu hét virga.
4.2 Lifandi sprotar
Í fornmálsdæmunum, sem fyrr voru rakin, er það einungis gullni
sprotinn í Þorsteins þætti, sá sem heftin voru skoruð af, sem er nefndur
þar sem hann stendur á rótinni, raunar í ævintýralegu umhverfi
frekar en náttúrulegu. Vínviðarteinungarnir í Stjórn eru ekki sprotar í
sömu merkingu því þeir vaxa eins og greinar, ekki stofnar. Því er ekki
að undra þótt í báðum textabrigðunum birtist nokkur vafi um hvort
þeir sé rétt nefndir sprotar.
Sprotarnir sem Norðmenn höfðu til að þurrka á net sín eru, ef rétt
er til getið, timbur af líku tagi og spírur einokunartaxtans; sömuleiðis
tjaldsprotinn á Flugumýri, trúlega innfluttur. Sprotar fornmálsins,
þeir sem notaðir eru fyrir barefli, hafa verið styttri bútar af sams
konar stöngum, heftin (handföngin) í Þorsteins þætti enn styttri enda
hægt að fá þau mörg af sama sprotanum. Aðrir sprotar hafa verið
grennri, gerðir úr teinungum sem ekki fengu að vaxa eins lengi, eða
úr mjórri endanum á teinungi, endanum sem búið er að fjarlægja af
spírum verslunartaxtans til að þær séu ekki minna en einn til tveir
þumlungar í mjórri endann.
4.3 Laufsproti, reyrsproti, teinn
Laufsproti, ætla má að það sé sproti sem búið er að höggva en er enn
með laufinu, helst þá sproti sem skorinn er til að nýta sem laufhey.
tunga_20.indb 14 12.4.2018 11:50:29