Orð og tunga - 26.04.2018, Síða 126
Matteo Tarsi: Að halda upp lögum og reglu 115
hefur umsjón með að halda uppi lögum og reglu’ (sbr. ofangreint í
umfjölluninni um orðið lögreglumaður).14
Höfundar Skírnisfréttanna 1836 þurftu sem sagt á íslenskulegra
orði en pólitímaður/-þjónn að halda og var smíð þeirra, eða öllu heldur
Konráðs Gíslasonar, eitt best heppnaða nýyrði 19. aldar. Skal nú vikið
að því að útskýra nánar merkingarþróun orðsins lögregla.
2.4 Tvær merkingar orðsins lögregla
Eins og fram hefur komið hér að ofan myndar orðatiltækið að halda
uppi lögum og reglu grundvöll í orðmyndunarferli orðsins lögregla.
Þar að auki leit þetta orð dagsins ljós fyrst í samsetningu með orðinu
maður en það hefur víða merkingu og táknar manneskju (sbr. t.d. kven-
maður). Orðið lögreglumaður, og reyndar allar samsetningar með maður
að síðara lið, er sem sagt svokölluð karmadhāraya-samsetning þar sem
fyrri liðurinn kveður nánar á um þann síðari. Orðið lögregla sem heiti
á stofnun eða embætti ber sem sagt að skilgreina sem leitt af orðum
með lögregla að fyrra lið og nánar tiltekið af orðinu lögreglumaður/-
þjónn. Hvernig stendur á því?
Heimildirnar sýna (sbr. ROH, undir lögregla) að orðið lögregla,
þegar það er ekki notað í samsetningum, táknar fyrst ‘lögreglumaður’
og er sem sé stytting á orðinu lögreglumaður. Elsta dæmi þess er skv.
ROH frá 1847 og ekki eru til eldri dæmi um lögregla í merkingunni
‘lögreglustofnun’. Merkingarútvíkkun úr lögregla ‘lögreglumaður’ í
lög regla ‘lögreglustofnun’ ætti svo að skýra sem sýnekdóku af gerð-
inni pars pro toto, þ.e. merkingarfræðilegt ferli þar sem hluti er lát-
inn tákna heildina. Til frekari skilgreiningar er við orðið lögregla ‘lög-
reglustofnun’ venjulega bætt greini (sbr. ofar). Það fer þó ekki fram hjá
manni að þessi merkingarútvíkkun hefur að öllum líkindum átt sér
stað vegna áhrifa frá samheitunum pólitímaður og pólití sem reynt var
að útrýma með orðinu lögregla. Sem sagt, úr því að pólití gat táknað
14 Orðið lögregla hefur sérstöðu meðal orða sem samsett eru annars vegar með lög
að fyrra lið og hins vegar með regla að síðara lið. Þess ber að geta að venjulega
mynda orð samsett með lög- eða -regla ákvörðunarsamsetningar (karmadhāraya-
samsetningar). Samt sem áður er í þessu tilviki um dvandva-samsetningu að ræða
og ekki eru til sérstakar athuganir á þessu fyrirbæri í íslensku en það er sjaldgæft
í germönsku málunum. Sem dvandva-samsetningar í íslensku má eigi að síður
nefna lýsingarorð á borð við súrsætur, bláhvítur og daufdumbur. Sögulega séð eru
einnig töluorðin þrettán, fjórtán, fimmtán o.s.frv. dvandva-samsetningar (sbr. enn
fremur Alexander Jóhannesson 1929:4).
tunga_20.indb 115 12.4.2018 11:50:50