Breiðfirðingur - 01.04.1968, Blaðsíða 114
112
BREIÐFIRÐINGUR
ef vel er á haldið enn í dag, þrátt fyrir máttuga keppendur
t. d. útvarpið í öllu þess veldi, bæði sem hljóðvarp og
sjónvarp.
Þegar ljóð og sögur þraut, þóttu tímarit vonlegust til
áhrifa, því að enn átti þjóðin ekkert dagblað. Fjölnir og
Sunnanpósturinn létu smásaman til sín taka og líkuðu þá
misjafnlega eins og allt mannlegt, sem kveður sér hljóðs,
og er í fyrstu líkt og rödd hrópandans í eyðimörku.
En samt leið vart á löngu, áður en þess yrði vart, að
þjóðin fór að hugsa eins og þessi tímarit höfðu gefið henni
tón til. Hvarvetna inátti greina bergmál þeirra og áhrif í
orði og verki, en þó fyrst og fremst í hugsun.
Fegurð landsins, sem horft hafði verið á blindum aug-
um öldum saman, varð nú öllum auðsæ og fyllti hjörtum
ást og yndi. Þannig verkuðu ljóð Jónasar í Fjölni.
Hinir dönsku fjötrar tungunnar, sem lágu á vörum
hvers íslendings, einkum hinna lærðari, þar sem þó sízt
skyldi, þeir röknuðu einn af öðrum og lindir hinnar fornu
tungu tóku aftur að niða hreinar og ljúfróma undan klaka-
storku útlendra áhrifa.
Hið forna frelsi skyldi aftur endurborið. Alfrjáls skal
þjóð í alfrjálsu landi.
Þannig verkaði kraftur tímaritanna á 19. öld líkt og
sunnanblær og sólskin eftir langan strangan vetur.
Og óvíða varð þessi vorþeyr áhrifameiri en vestanlands
og þó ekki sízt við Breiðafjörð. En þaðan bárust þessir
ylstraumar yfir og náðu tökum á hinum beztu sonum þessa
þjóðvorstímabils. Það var ekki einungis að Jón Sigurðsson
væri af Vestfjörðum, heldur var hann vakinn og hvattur til
starfa af vaknandi vormönnum vestanlands.