Breiðfirðingur - 01.04.1968, Blaðsíða 117
BREIÐFIRÐINGUR
115
Þetta tímarit var gefið út af Framfarastiftun Flateyjar
á Breiðafirði, eða eins og það var orðað þá, meðan íslenzk-
an var í fjötrum þeim, sem áður er ymt að, af Flateyjar
framfara stofnfélags bréflega félagi.
Ritstjórarnir eða ritnefndarmennirnir voru þó allir Is-
lendingar, þótt ekki rituðu þeir nöfn sín á íslenzkan hátt,
utan aðeins einn af fjórum, en það mun nokkuð rétt hlut-
fall til íslenzkunnar af lærðum mönnum þeirra tíma. Þeir
hétu: Olafur Sivertsen, Brynjólfur Benediktsen, Eiríkur
Kúld og Guðmundur Einarsson. Þrír þeirra voru prestar
eins og að líkum lætur, það hafa oftast verið prestar, sem
fremstir stóðu í framfaramálum þjóðarinnar, en einn var
menntaður auðmaður á þeirrar tíðar mælikvarða. Án hans,
Brynjólfs Benediktsens, hefði sjálfsagt orðið erfitt að greiða
kostnað við prentun og dreifingu. En hinir munu nú einnig
hafa verið sæmilega loðnir um lófana.
Efni ritsins skiptist í aðalatriðum í tvennt, sem þeir
nefndu bálka: Fréttabálkur og ritgerðabálkur. Fréttir voru
nær algjörlega innlendar, en eiga sér nánast bergmál eða
samanburð í ástandi eða aðstöðu umheimsins. En útlönd
voru þá býsna fjarlæg og fjarstaða íslands talin þess helzta
einkenni og áhrifavaldur bæði til bölvunar og blessunar.
Allt, sem gerðist í útlöndum bar með sér blæ ævintýra og
goðsagna í senn. — Ritgerðarbálkurinn er fræðsla um
flest, sem betur skyldi fara. Og þar koma skýrt fram áhrif
þeirra mennta og mannasiða, sem sjálfsagt þótti að taka
tillit til og lært var í útlöndum eða af útlendum bókum og
fræðiritum.
En allt er þetta miðað við íslenzkar aðstæður, íslenzk
sjónarmið, ástandið eins og það var og hins vegar það sem