Breiðfirðingur - 01.04.1978, Blaðsíða 66
64
BREIÐFIRÐINGUR
helst aldrei skilja hana við sig á þessum viðkvæmu árum
bernskunnar, enda var líf þeirra alla tíð svo samofið af
kærleika og hlýju á báðar hliðar að fátítt mun. Og þær
nutu þess að vera samvistum allt lífið, utan þess tíma er
Ragna var í skóla og vann fyrir kostnaði þeim sem af
skóladvöl hennar leiddi og fetaði þannig í fótspor móður
sinnar á hennar yngri árum.
Og enn er Önnu leitað og hún beðin um hjálp og nú er
það skáldið Stefán frá Hvítadal, sem kominn er og biður
hana að taka að sér heimilið og allan barna hópinn, meðan
hann fylgir konu sinni á sjúkrahús, hann geti ekki sagt
um hve langan tíma þetta taki, en hann mun ekki sjálfur
koma heim fyrr en þau komi bæði hjónin aftur, ef allt
gangi að óskum. Verði dvölin kannski nokkrar vikur eða
meira. Anna tekur dót sitt saman og fer með skáldinu
ásamt dóttur sinni. Fyrirvaralaust er hún tilbúin, lét aldrei
standa á sér. Skáldið kom heim fyrir jólin með konu sína
nokkuð vel hressa en honum fannst hún þurfa á hvíld og
heimilishjálp að halda og bað Önnu að vera hjá sér vetrar-
langt, sem hún gerði. Þau Anna og Stefán urðu miklir
vinir, hann mat hana mikils, sá kosti hennar og hæfileika
og hafði yndi að viðræðum við hana.
Stefán orti nokkuð þennan vetur. Það hefur Ragna dóttir
Önnu sagt mér, að hann hafi haft sér stofu í húsi sínu sem
hann hélt til í, þegar hann orti, ekki máttu börnin koma þar
inn, nema á þröskuldinn, þar inni var brennt reykelsi og
lagði ilminn um allt. Skáldið lá aftur á bak í rúmi sínu
þegar hann orti og raulaði alltaf það sama fyrir munni
sér, það kallaði hann að „kliða“. Ragna sagði mér líka,
að hann hefði verið sér mjög góður, alveg eins og sínum