Breiðfirðingur - 01.04.1987, Qupperneq 81
BREIÐFIRÐINGUR
79
þessi hreyfing hafi verið ungu fólki þeirra tíma besti grunn-
skóli, en frá honum hafa sprottið fagrar og menningarlegar
hugsjónir, sem er mikilvægt veganesti fyrir framtíðarsýn
kynslóðanna.
Þá voru einnig í þessum byggðarlögum leikhópar, sem
höfðu það á stefnuskrá sinni að fara á milli staða með leik-
verk, ef hægt var að koma því við. Þetta mæltist vel fyrir og
góð tilbreyting á löngum vetrarkvöldum, þegar einangrun
var of sterkur þáttur á Snæfellsnesi. Það var venja þegar
skemmtanir voru haldnar, hvort heldur var leiksýning eða
annað skemmtiefni, að dansað var á eftir, þá oftast fram
undir morgun, þá náði gleðin sínu hámarki í ástaróð æsk-
unnar.
íbúar þessara byggða sóttu ávallt skemmtanir til hvors
annars, sérstaklega var það unga fólkið, sem fór á milli
kauptúna, það blandaðist áhættu og ævintýrum vegna vegar-
tálmans, sem Ólafsvíkurennið var, og óbrúuð vatnsföll gátu
verið vafasöm yfirferðar að vetrarlagi. Á æskuárum hugsar
unga fólkið ekki um hættur, sem kunna að vera á leið þess,
þótt það missi af sér fótabúnað í vatnsmiklum ám, eða höfuð-
fat fjúki í vindskælingi, það er aukaatriði þegar lífsgleði og
æskublóma skal njóta. Lífsgleðin heldur ávallt áfram, það er
lögmál hennar. Ég minnist þess hvað piltar frá Ólafsvík
sýndu mikla hæfileika í því að kveikja eld ástarinnar hjá
stúlkum á Hellissandi, þar voru þeir miklir sigurvegarar,
eins og á fleiri sviðum og er það vel. Síðan er annað lögmál,
það mun teljast til undantekninga, ef stúlkur gefa heima-
piltum hýrt augnaráð, þó það séu fyrirmyndarmenn, þeir og
þær eru alltaf betri frá hinum staðnum. Þetta er fyrirbrigði,
sem fylgt hefur kynslóðum í gegnum dagana.
Ég lýk nú þessum hugleiðingum mínum um æskuslóðir,
sem ég hefi skrifað mér til gamans. Að lokum vil ég geta
þess að um tuttugu ára gamall hvarf ég úr foreldrahúsum og
gekk á vit framtíðarinnar og fór í iðnnám í höfuðborginni,
sem ég var lengi búinn að blunda með í huga mínum. Ég
sveif því á vængjum æskuáranna úr heiðríkju heimahaganna
til framtíðarstarfa.