Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 54
BREIÐFIRÐINGUR54
á þessa leið, „... og fékk sér þar hesta. Voru þeir fimm eða sex og riðu
suður um heiði og svo suður um Mýrar ...“ (Stu I, 273; Sturl I, 258).
Eyjólfur átti dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar, höfðingja á Hrafnseyri
í Arnarfirði, og fékk lánaða hesta hjá Guðrúnu á Geirröðareyri, systur
Hrafns. Hrafn hefur auðsæilega átt hauk í horni þar sem systir hans
var á Geirröðareyri þegar hann fór um fjörðinn að vestan og hugðist
halda ferð sinni áfram. Slík samskipti manna sem náðu um þveran fjörð
voru algeng og líklega ekki fátítt að greiða för manna með því að lána
þeim hesta. Þeir sem fóru á bátum í Saurbæinn settust líka á hestbak
og héldu för sinni áfram þannig. Í Laxdælu er sennilega raunsönn
lýsing en þar segir um Gest Oddleifsson í Haga á Barðaströnd, þegar
hann fór til alþingis, „Þetta sumar fór Gestur til þings og fór á skipi til
Saurbæjar sem hann var vanur. Hann gisti á Hóli í Saurbæ [Saurhóli
eða Staðarhóli]. Þeir mágar léðu honum hesta sem fyrr var vant.“ (ÍF
V, 95). Með þessum hætti losnaði Gestur við þreytandi ferð á landi,
alla leið fyrir Gilsfjörð. Það var greinilega gagnlegt fyrir stórbændur og
höfðingja sem komu að vestan að eiga vini og bandamenn í Saurbænum,
menn sem höfðu tilbúna hesta, t.d. til alþingisreiðar. Eða öfugt, lána
þeim mönnum báta sem komu að sunnan eða austan á hestum og ætluðu
sér vestur á Barðaströnd eða vestur og norður á firði. Líka gat verið
hagfellt að fá bátsferð úr Saurbæ yfir á Reykjanes og fá hesta lánaða
þar, t.d. á Reykhólum. Eða í þriðja lagi að fá far fyrir hesta og menn
á stóru farmaskipi úr Saurbæ yfir á Reykjanes eða lengra. Um slíkar
ferðir eru nokkur dæmi og allmargar vísbendingar til viðbótar.6
Þegar hugað er að ferðum sem þessum og ferðaháttum á bátum og
hestum, sést hversu mikilvæg gátu verið fyrir ferðamenn býli í þjóðbraut
ef þar bjuggu bændur sem lánuðu báta og hesta. Slíkir búendur, með
pólitískt vit, gátu nýtt sér stöðu sína og aflað bandamanna að launum
fyrir greiðvikni.7 Þess vegna voru býli eins og Reykhólar og Staðarhóll
mikilvæg. Bráðnauðsynlegt var fyrir metnaðarmenn eins og Þórð
6 Helgi Þorláksson, „Ódrjúgshálsar og sæbrautir“.
7 Helgi Þorláksson, Gamlar götur og goðavald, 66 o. áfr. Helgi Þorláksson, „Sauðafell“,
102–5. Helgi Þorláksson, „Hruni“, 9–10.