Breiðfirðingur - 01.05.2015, Page 164
BREIÐFIRÐINGUR164
og þú veist – Ég hefi verið að hugsa um þig alla vikuna síðastliðnu, og
ég skil ekkert í því hve mynd þín er fast greipt í huga minn, ég sem
hefi séð konur í London, Edinborg, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn, ég
man ekki eftir einu einasta konuandliti nema þínu. Það er þetta sem ég
skil ekki, en það er ef til vill af því að ég er öðruvísi en aðrir menn og
á ekki samleið með fjöldanum. Ég er fæddur uppreisnargjarn öreigi og
hefi átt við hleypidóma fólksins að stríða, en ég skal sigra, ég skal verða
ofaná að lokum og heimurinn skal lúta mér og engum öðrum. – Þetta
er kanskje vitleysa, Já ef til á ég ekki annað erindi í heiminn en að þjást
fyrir mínar eigin hugsanir og hverfa síðan einn góðan veðurdag ofaní
kalda og raka jörðina og gleimast eins og blómið sem blómgast í vor
og fölnar í haust.
Svona hugsa ég stundum þegar ylla liggur á mér, en í þessa fáu daga
síðan ég sá þig finnst mér leiðin að takmarkinu greið og bros af vörum
þínum gæti borið mig þangað á einu sumarkvöldi.
Hvað er ástin. Ég veit það ekki. Hún er ekki fegurð, því þú ert ekki
fögur og hún er ekki viska því þú ert ekki vitur. Hún er eitthvað sem ég
ekki skil. kanskje er hún Guð almáttugur eða satan sjálfur. Kanskje er
hún draumurinn í sál barnsins.-
Þórhildur ég elska þig.
Ég hefi ort nokkur smá kvæði og skrifað nokkrar smásögur og ég
veit það nú að ljóðin mín eru um þig og ekkert annað. Kvæðið um
álfkonuna og kvæðið um drottninguna í ævintýralandinu og jafnvel
kvæðið um kveldsroðann og fiðluna er um þig og enga aðra. Þú ert
einasti draumurinn sem mig hefir dreymt og þótt við sjáumst aldrei
framar, þá verður þú það ljós er lýsir mér hvar sem leið mín liggur í
heiminum. Allt sem ég á eftir að starfa verður helgað þér og verði verk
mín einhverntíma einhvers metin þá er þinn heiðurinn því það varst
þú sem drógst það fram úr djúpi sálar minnar og gafst lífi mínu lit og
ljóma.–
Nú fyrst veit ég að mér auðnast að ná því takmarki sem ég setti mér í
upphafi og það á ég þér að þakka. Ég er þér óumráðalega þakklátur fyrir
það. – Góða nótt.
Aðalsteinn Kristmundsson.