Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Page 10
10 TMM 2010 · 3
Einar Már Guðmundsson
Bankar og eldfjöll
„Íslendingar geta hvorki stjórnað bönkum né eldfjöllum,“ sagði breski
gamanleikarinn John Cleese þegar hann þurfti að taka leigubíl frá Osló
til Brussel. Samkvæmt fjölmiðlum kostaði leigubíllinn 650.000 krónur.
Ekki er ólíklegt að gestgjafar Johns Cleese hafi borgað brúsann eða
þeir sem áttu von á honum til Brussel. Jafn ómissandi maður og John
Cleese borgar ekki leigubíla. Það fylgdi þó ekki sögunni; og heldur ekki
hvort hann ætlaði að hitta hr. Brussel, sjálft Evrópusambandið. John
Cleese myndi þó ekki muna mikið um að borga einn taxa eftir allar
auglýsingarnar sem hann lék í fyrir Kaupþing. Hann var um hríð andlit
bankans og á því sinn þátt í stjórnleysi bankanna og hruni, í þeirri stað
reynd að Íslendingar geta ekki stjórnað bönkum.
John Cleese var einsog meðvirkur aðstandandi. Hlutverk hans var
að fegra ástand, sem í raun var glæpsamlegt, og sem slíkur tók hann
þátt í að viðhalda trúnni á loftbólukerfi íslensku fjármálafurstanna,
á spilavítiskapítalisma þeirra. Hann seldi persónu sína þeirri veröld
til framdráttar. Ég veit ekki til að það komi fram í Rannsóknar
skýrslunni um bankahrunið hvað John Cleese fékk greitt fyrir leik sinn
í auglýsingunum fyrir Kaupþing, en skilanefndin ætti að geta slegið
því upp í bókhaldi hins hrunda banka. Hann var í vinnu við að fegra
Kaupþing og drauma þeirra um heimsyfirráð; og hjá Kaupþingi var
mönnum ekki í kot vísað. Stjórnendur bankans lánuðu heilu fjárlögin
til bresks kráareiganda, svo dæmi sé tekið, og hver öðrum og vinum
sínum ógrynni fjár, enda mælist gjaldþrot þeirra eitt það stærsta í
veraldarsögunni. Stjórnendur bankans þénuðu hundrað þúsund krónur
á tímann og þeir hæstlaunuðu tóku sér sem svaraði Nóbelsverðlaunum
í mánaðarlaun. Reiknimeistarar hafa komist að því að hefðu þeir þegið
meðallaun fyrir störf hefðu launagreiðslur hafist löngu fyrir Krist.
Annar bankastjórinn hét Sigurður Einarsson og er eftirlýstur af Inter
pol þegar þessar línur eru skrifaðar. Hinn bankastjórinn hét Hreiðar