Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Blaðsíða 41
TMM 2010 · 3 41
Hermann Stefánsson
Andlát
„Elskuleg tengdamóðir mín,“ las faðirinn fyrir uppkastið að dánar til
kynningu ættmóðurinnar, eiginkonu sinnar.
„Já,“ sagði tengdadóttirinn með semingi og hikaði við að rita niður
eftir honum. Hún er vinkona mín og sagði mér frá þessu síðar. Hún
hafði ekki vitað að þessar dánartilkynningar gætu valdið deilum og
átti sér því einskis ills von þegar ættfaðirinn kallaði þau á sinn fund,
systkinin og maka þeirra, til að semja með honum tilkynninguna,
bjóst í mesta lagi við örlitlum efasemdum um hvort ætti að segja „lést
á Landspítalanum“ eða „lést í Landspítalanum“. Hún gerði ráð fyrir að
það væri ástæðan fyrir nærveru þeirra tengdadætranna, sem voru báðar
íslenskufræðingar.
„Já?“ innti svilkona hennar eftir framhaldinu.
„Elskuleg tengdamóðir mín, eiginkona, móðir og amma,“ hélt sá
gamli áfram.
„Einmitt,“ sagði hún skilningsrík. „Það er reyndar hefðbundið að byrja á
að segja eiginkona, síðan móðir, þarnæst amma og loks tengdamamma.“
Sá gamli ræskti sig – rumdi nánast. Vanþóknunin leyndi sér ekki. Það
yrði að fara vel að honum. Í rauninni var hann mjög dulur. Hún þekkti
hann ekki vel því auk feimninnar hafði hann alla tíð verið úti á sjó, hann
var skipstjóri.
„Nú, jæja,“ sagði hann. „Eiginkona mín, móðir, amma og elskuleg
tengdamóðir …“
„Tja,“ sagði svilkonan alúðlega. „Við ættum kannski bara að semja
þetta snöggvast fyrir þig. Það er nógu mikið á þig lagt samt.
„Nei,“ svaraði kallinn höstugt. Endanlegra svar var ekki til – nema
dauðinn. „Ég sem textann og þið komið með athugasemdir. Drengir
mínir, leggið þið líka orð í belg.“
Synirnir stóðu líkt og felmtri slegnir, fjarlægir og utan við sig,
hryggir.