Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Síða 46
Va l u r G u n n a r s s o n
46 TMM 2010 · 3
og margir kröfðust aftur breytinga. Á vinstri vængnum bjuggust
menn við því að kreppan myndi styrkja þau öfl sem börðust gegn
heimskapítalismanum, bæði í kjarnalöndum hans og í þriðja heim
inum. Gamble segir þó að hægrimenn hafi verið duglegri að nýta sér
sóknarfærið sem hér bauðst, en þeir lýstu kreppunni sem vandamálum
tengdum velferðarkerfi og ríkisafskiptum.7 Þessi söguskoðun varð ofan
á næstu 40 árin eða svo, og það má ef til vill segja að sömu öfl takist að
einhverju leyti á nú.
Frjálshyggjan nemur land
Ísland fór ekki varhluta af kreppu 8. áratugarins, en þó má almennt
segja að hún hafði lítil áhrif hér. Hér var kreppa upp út 1968 í tengslum
við fall síldarstofnsins, en þó að hún hafi verið djúp er ekki að sjá að hún
hafi haft langvarandi áhrif. Meðalhagvöxtur á ári á tímabilinu 1971 til
1980 var hér 5,2 prósent, sem er sá mesti á lýðveldistímanum.8 Kreppan
kom því ekki hingað fyrr en á 9. áratugnum, þegar hagvöxtur féll að
meðaltali niður í 1,7 prósent.9 Verst voru árin frá 1988 til 1994, þegar
kaupmáttur dróst saman um 24,3 prósent.10 Þetta voru einmitt árin sem
umrótið var hvað mest í íslenskum stjórnmálum og nýfrjálshyggjan
ruddi sér til rúms.
Davíð Oddsson varð forsætisráðherra í samsteypustjórn Sjálfstæðis
flokks og Alþýðuflokks árið 1991 og stefnan var mörkuð, þó að það
væri næsta ríkisstjórn hans, eftir kosningarnar 1995 og í samvinnu við
Framsóknarflokkinn, sem hlaut nafnið „einkavæðingarstjórnin.“ Árið
2007 var litið yfir farinn veg í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðis og Fram
sóknarflokks (sem lauk skömmu síðar) og segir Einar Mar Þórðarson
stjórnmálafræðingur:
Eitt helsta afrek þessarar ríkisstjórnar held ég að hljóti að vera einkavæðingin og
þá sérstaklega einkavæðing bankanna … Hún gjörbreytti íslensku atvinnulífi og
hefur verið mjög jákvæð fyrir samfélagið.11
Það má því vera ljóst að þetta var kjarninn í stefnu stjórnvalda á
tímabilinu.
Lýsing Gambles á uppgangi nýfrjálshyggjunnar almennt á 8. ára tugn
um á vel við um Ísland, þó að hún hafi ekki komið hingað að krafti fyrr
en rúmum áratug síðar, þegar kerfið hér var í svipuðum kröggum og
áður höfðu orðið annarsstaðar.