Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Page 54
L a u f e y H e l g a d ó t t i r
54 TMM 2010 · 3
verk Picasso, Kyrralífsmynd með tágafléttaðri stólsetu (Naturemorte à
la chaise cannée) frá 1912 sem fyrsta „collage“verkið. Það sem aðgreinir
það frá öðrum málverkum er tágafléttaða stólsetan, máluð á vaxborinn
striga sem er límdur við hlið kyrralífsmyndarinnar og kaðallinn sem
umkringir sporöskjulaga myndflötinn og myndar rammann. Picasso
og Braque töluðu sjálfir um „papiers collés“ eða álímda pappíra. Þessi
uppfinning þeirra félaga átti eftir að hafa afgerandi afleiðingar því
flestallir framúrstefnulistamenn á fyrri hluta 20. aldar heilluðust af
þeim ótæmandi möguleikum sem þessi frjóa aðferð hafði upp á að
bjóða og margir listamenn fóru nú að taka að láni hina ýmsu hluti úr
veruleikanum, efnisbúta, spil, lestarmiða og blaðaúrklippur til að setja
inn í verkin sín. Fútúristarnir tileinkuðu sér aðferðina því þeim fannst
hún henta vel nútímalegum viðfangsefnum sínum – til dæmis rúss
nesku listamennirnir Kazimir Malevich (1879–1935), Vladimir Tatline
(1885–1953), Alexander Rodchenko (1891–1956), og fleiri. Um svipað
leyti kom fjölbreytilegur hópur listamanna saman á Cabaret Voltaire
í Zurich og kölluðu sig Dada. Í hópnum voru bæði ljóðskáld og mynd
listarmenn sem aðhylltust eins konar stjórnleysisstefnu sem átti sér
pólitískar rætur og vildu taka þjóðfélagið til gagngerrar endurskoðunar.
Þeir gerðu uppreisn gegn hefðbundnum viðhorfum til lista m.a. með
nýrri efnisnotkun og nýjum aðferðum og tóku því klippimyndinni
fagnandi. Með klippimyndinni gafst þeim frábært tækifæri til að búta
niður þann veruleika sem þeir börðust gegn og búa til úr honum nýtt
myndmál sem náði að grípa athygli fjöldans og tengja listina við lífið.
Þannig gátu þeir líka tjáð upplausnarástandið sem ríkti í Evrópu á milli
stríðsárunum og gagnrýnt á beinskeyttan hátt hið borgaralega samfélag
sem þeim var í nöp við. Einnig heilluðust þeir af sjálfu handverkinu við
gerð klippimyndarinnar sem minnti þá um margt á verkamannavinnu.
Gjöf til nútímalistasafnsins í
Centre Georges Pompidou
Frá 17. febrúar til 24. maí síðastliðinn stóð yfir í Galerie d’Art graphique
í Centre Georges Pompidou menningarmiðstöðinni í París sýning á 98
collage eða klippimyndum eftir listamanninn Erró, unnum á fimmtíu
ára tímabili. Þetta var í fyrsta skipti sem einkasýning var haldin á verkum
eftir íslenskan listamann í þessari virðulegu menningarmiðstöð og
einnig í fyrsta skipti sem safn stóð fyrir sýningu á klippimyndum Errós.
Erró leit lengi vel á klippimyndina sem eins konar einkamál sem varðaði
mest hann sjálfan og fannst lítil ástæða til að bera myndir sínar á borð