Skírnir - 01.04.2006, Side 16
14
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
inn þetta enn skýrar: „Gunnar mótast aldrei af grunnhugtökum
framvinduaflanna, hann hugsar í öðrum víddum. Hann sér ekki né
skynjar einstaklinginn í breytingarháttum samfélagsins og ekki
nema að takmörkuðu leyti sem félagsveru", og svo nokkru síðar:
„Allur grundvöllur í bókum hans er einstaklingurinn innan tak-
marka fæðingar og dauða, maðurinn einn sér með „rætur í mold
og limar í lofti"
í þessum athyglisverðu orðum er Kristinn í raun og veru að
gagnrýna Gunnar fyrir að semja verk sín í anda „Blut und Boden“
stefnunnar, og er það vitanlega talsvert víðtækara mál en snertir
þessar sögulegu skáldsögur einar. En orð Kristins hljóta einnig að
vekja ýmsar spurningar sem varða sögurnar mjög beint, og þá
einkum þær tvær sem Kristinn virðist fyrst og fremst hafa í huga,
sem sé Fóstbrxður og Jörð: hvaða hugmyndir og sögusýn birtast
þar, koma þar engin „framvinduöfl“ við sögu né breytingarhættir
samfélagsins, á hvaða hátt er „maðurinn einn með rætur í mold“
söguleg vera, og er það réttlátur dómur að telja þær ekki annað en
endursögn á fornsögunum — að vísu með „nútímahugmyndum",
sem eru væntanlega tímskekkja?
Hér verður nú leitast við að varpa ljósi á þessi atriði eins og þau
koma fram í þeim tveimur skáldsögum sem fjalla um sjálfa land-
námsöldina. Þar sem stíllinn og frásagnarhátturinn í Fóstbræðrum
og Jörð, sem voru samdar með fimmtán ára millibili, er eins ólík-
ur og frekast getur verið kann að virðast hæpið að tengja þær beint
saman. En fyrir utan það að Jörð er samin sem beint framhald af
Fóstbræðrum og þessar tvær skáldsögur rekja sögu landnámsald-
arinnar frá því hún hófst með komu Ingólfs og þangað til henni
lauk með stofnun alþingis, snúast þær um sömu hugmyndir frá
byrjun til enda. Á þennan hátt mynda þær sérstaka heild, sem skil-
ur þær frá öðrum sögum í skáldsagnabálkinum og gerir það að
verkum að þær líkjast einna helst tónverki í tveimur þáttum með
úrvinnslu úr sama stefjaefni en í tvenns konar tempói, hröðu og
hægu.
3 Kristinn E. Andrésson: „Kjarninn í verkum Gunnars Gunnarssonar”, Um ís-
lenzkar bókmenntir II, Reykjavík 1979, bls. 314 og 320 (tilv. eftir Höllu Kjart-
ansdóttur, Trú í sögum, bls. 137).