Skírnir - 01.04.2006, Page 22
20
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
Gunnar Gunnarsson var ekki fyrstur til að setja fram þau
vandamál sem hann tekur fyrir í þessum tveimur skáldsögum. Það
hafði verið gert tveimur árum áður en Fóstbrœður kom út en frá
sjónarmiði sem sagnfræðingum hefur yfirleitt virst lítt sannfær-
andi. Árið 1916 birti norski rithöfundurinn og sagnfræðingurinn
Hans E. Kinck grein sem nefndist: „Et par ting om Ættesagaen.
Skikkelser den ikke forstod".6 Sú kenning sem þar er haldið fram
fær í sjálfu sér engan veginn staðist. Hans E. Kinck er sem sé sann-
færður um að Islendingasögurnar, sem eru skrifaðar á 13. öld en
gerast að mestu leyti á hinni 10., fjalli um raunverulegar persónur
og raunverulega atburði sem enn sé hægt að nálgast í sinni réttu
mynd, þótt margar kynslóðir „sagnamanna" hafi fært hvort
tveggja úr lagi. Ein ástæðan fyrir afbökun sagnanna var, sam-
kvæmt Kinck, samspil áheyrenda, sem vildu hreinar og skýrar
línur í frásögninni, og sögumannsins sem fylgdist með áhrifum
sögunnar á áheyrendur og hikaði ekki við að laga hana að smekk
þeirra. Af þessum ástæðum álítur Kinck að sagnamennirnir hafi
misskilið eða mistúlkað persónuleika og athafnir ýmissa söguhetja
íslendingasagna, en hægt sé að finna sannleikann í gegnum frá-
sögnina. Meðal þeirra persóna sem „sagan skildi ekki“ nefnir
Kinck Skalla-Grím og Egil son hans. Hann álítur að ofbeldisfull
framkoma þeirra og óseðjandi athafnaþörf — flakk Skalla-Gríms
um nætur og sífellt flakk Egils um önnur lönd — stafi af rótleysi
höfðingjaættar sem hafi verið rifin upp úr ættjörð sinni og neyðst
til að setjast að annars staðar. Ástæðan fyrir því að þetta sé ekki
sagt í sögunni sé sú að sögumaðurinn, eða margar kynslóðir
sagnamanna, hafi litið svo á að slíka útskýringu myndu áheyrend-
ur ekki skilja; því hafi þeir lagt áhersluna á græðgi og ágirnd pers-
ónanna og vilja þeirra til að ná rétti sínum í hvívetna.
í þessari túlkun sýnir Hans E. Kinck stundum undarlegt skiln-
ingsleysi á þeim rituðu textum sem hann hefur fyrir framan sig:
það mætti jafnvel ásaka hann fyrir að leiða hjá sér sögurnar eins og
þær koma af skepnunni og setja í staðinn einhverjar aðrar sögur
6 Hér er stuðst við endurprentun greinarinnar í: Else Mundal: Sagadebatt, Ósló
1977, bls. 164-186.