Skírnir - 01.04.2006, Page 53
SKÍRNIR ORÐRÆÐA UM ORRUSTUÞOTUR 1961-2006 51
Davíð alls ekki eins mikið óvart og ráða mátti af viðbrögðum
hans, enda höfðu íslensk stjórnvöld fengið að vita í desember 2002
að til stæði að kalla þoturnar á brott um vorið, eins og áður sagði.
Þrátt fyrir þrýsting Bandaríkjastjórnar vildu íslensk stjórnvöld
engar viðræður um varnarmálin fyrir þingkosningar 2003, enda
tóku þau ekki í mál að niðurstaðan væri gefin fyrirfram. Það
skýrir hvers vegna Bandaríkjamenn létu til skarar skríða 2. maí,
enda þótt tímasetningin orkaði tvímælis. Eftir bréf Davíðs gerðu
bandarískir embættismenn sér grein fyrir því að málið væri kom-
ið í uppnám og vinda þyrfti ofan af því. Menn þyrftu að kæla sig
niður.65 Samt sat allt við það sama á fundi sem samninganefnd
Bandaríkjanna undir forsæti Marisu Lino, sendiherra og ráðgjafa í
málefnum sem tengjast bandarískum herstöðvum erlendis, átti
með íslenskum embættismönnum í Reykjavík í lok júní. Banda-
ríkjamenn ítrekuðu þann ásetning sinn að kalla heim orrustuþot-
urnar, en íslensk stjórnvöld lýstu sig andvíg áformunum og töldu
að það þjónaði engum tilgangi að halda viðræðunum áfram á þess-
um nótum. Það eina sem gæti hreyft málinu væri að koma á fundi
á æðstu stöðum, þ.e. milli Bush og Davíðs; ekki væri á færi emb-
ættismanna að leysa það.66
Sumarið 2003 hvikuðu Davíð og Halldór aldrei frá þeirri kröfu
opinberlega að orrustuþoturnar yrðu hér áfram. Reyndar var Hall-
dór varfærnari í yfirlýsingum sínum og taldi á tímabili að málið
væri tapað, eins og sumir embættismenn í utanríkisráðuneytinu.67
En Davíð neitaði að halda áfram samningaviðræðum við Banda-
ríkjamenn á þeirri forsendu að íslensk stjórnvöld væru þannig með
óbeinum hætti að leggja blessun sína yfir ákvörðun Bandaríkja-
stjórnar og túlkun hennar á varnarsamningnum. Og þótt Condo-
leezza Rice tjáði Davíð í símaviðtali í lok júlí að Hvíta húsið hefði
tekið málið í sínar hendur taldi hann gagnslaust að halda samninga-
fund án þess að nokkur von væri um að hann skilaði árangri.68
65 Viðtal við bandarískan embættismann, 29. ágúst 2004.
66 Viðtal við íslenskan embættismann, 25. ágúst 2003.
67 Viðtöl við íslenska embættismenn í utanríkisráðuneytinu, 15. júní og 25. ágúst
2003.
68 Sjá Morgunblaðið, 24. júlí 2003.