Skírnir - 01.04.2006, Side 61
SKÍRNIR ORÐRÆÐA UM ORRUSTUÞOTUR 1961-2006 59
yrði kölluð á brott í efnahagskreppunni í lok 7. áratugarins. Árið
2005 voru gjaldeyristekjurnar af herstöðinni komnar niður í 2,3%
af útflutningstekjum en námu engu að síður 8,2 milljörðum króna
auk þess sem hún skapaði yfir 630 íslensk störf.85 Onnur ástæða
sem nefnd hefur verið er björgunasveit flughersins. Hún hefur
vissulega skipt máli, enda bjargað fjölmörgum mannslífum frá því
að hún kom hingað árið 1971. Þótt Landhelgisgæslan hafi eignast
eigin björgunarþyrlur var enn litið á bandarísku þyrlusveitina sem
öryggistæki þangað til ákveðið var að taka yfir hlutverk hennar í
samningaviðræðum við Bandaríkjastjórn.
Fullyrt hefur verið að Davíð Oddsson hafi fengið fyrir því
tryggingu á fundi sínum með Bush sumarið 2004 að ekki yrði
gripið til einhliða ákvarðana af hálfu Bandaríkjamanna.86 Það þarf
því ekki að koma á óvart að Bandaríkjamenn biðu með að taka
endanlega ákvörðun um að kalla þoturnar á brott þangað til hann
hvarf úr stjórnmálum. Þeir vildu ekki að deilan græfi undan hon-
um í pólitísku tilliti. Bandarískir embættismenn þreytast seint á að
rifja upp ummæli Davíðs á NATO-fundinum 2001 til stuðnings
Bush.
En ákvörðun Bandaríkjaforseta endurspeglaði þá tilhneigingu
Bush-stjórnarinnar að fara sínu fram einhliða í alþjóðamálum (e.
unilateralism). Það átti að koma íslenskum stjórnvöldum í skiln-
ing um það í eitt skipti fyrir öll að það þjónaði engum tilgangi að
viðhalda herviðbúnaði á íslandi. Þetta var skýrt dæmi um
valdapólitík í anda raunsæishyggju.87 Bandaríkjamenn töldu sig
ekki eiga Geir Haarde eða Halldóri Ásgrímssyni skuld að gjalda.
85 Sjá Vegvísi Landsbankans, 16. mars 2006, www.landsbanki.is/vegvisir.
86 Viðtöl við bandaríska og íslenska embættismenn, 31. ágúst 2004 og 15. septem-
ber 2005.
87 Um raunsæishyggju í alþjóðasamaskiptum sjá t.d. Kenneth Waltz: Theory of
Intemational Politics (Reading, MA: Addison-Wesley, 1979); sjá einnig Robert
Keohane (ritstjóri): Neorealism and Its Critics (New York: Columbia Uni-
versity Press, 1986); Barry Buzan: People, States and Pear,\ Hans J. Morgen-
thau: Politics among Nations (New York: Knopf, 1978); Edgar H. Carr: The
Twenty Years Crisis, 1919-1939: An Introduction to the Study of Intemational
Relations (Basingstoke: Palgrave Macmillan, 2001); John Mearsheimer: „E.H.
Carr vs. Idealism: The Battle Rages On“, International Relations, 19, 2 (2005),
bls. 139-152.