Skírnir - 01.04.2006, Page 169
SKÍRNIR
UM BORGES
167
bætist að í verkum hans má víða finna sjálfsævisögulegar tilvísan-
ir í veru hans og rannsóknir á bókasöfnum held ég að margir hafi
almennt séð hann fyrir sér sem hinn fullkomna og yfirvegaða
menntamann sem varla hafi litið upp úr bókum nema til að skrúfa
lokið af lindarpennanum og setja sjálfur línur á blað; hann hafi
lifað lífi sínu innan um leðurbundna kili þjóðarbókhlöðunnar í
Buenos Aires þar sem fátt hafi rofið þögnina nema tif standklukk-
unnar og svo kannski háfleygar samræður Borgesar og annarra
bókmenntamanna á kaffistofunni.
En það var öðru nær. Ævi Borgesar, eða megnið af fullorðins-
árunum áður en hann varð heiminum kunnur, var lifuð í örvænt-
ingu, útskúfun, niðurlægingu og kvöl.
Framan af leit þó allt vel út með lífshlaup hans. Á æskuárum
hans var velmegun í Argentínu, landið var eitt af hinum ríkustu í
heimi og drengurinn lifði við ágæt kjör. Faðir hans, doktor
Borges, ólst upp hjá móður sinni sem var ensk, en hún missti
mann sinn, sem var herforingi, frá nýfæddum syni. Borges eldri
var ágætum gáfum gæddur en ekki námsmaður nema í meðallagi;
náði þó lögfræðiprófi á endanum með þriðju einkunn. Þar spilaði
inn í að þótt hann væri í lögfræðinámi stóð hugur hans til bók-
mennta og kannski bóhemalífs — þegar hann hafði lokið laganám-
inu í Buenos Aires ætlaði hann að stofna anarkistanýlendu í
Paraguay ásamt nokkrum vinum sínum. En hann heltist úr lest-
inni þegar hann kynntist ungri konu af sögufrægum argentínskum
landnemaættum sem fóru halloka í borgarastríðum 19. aldarinnar.
Þau kvæntust og eignuðust soninn Jorge Luis og svo dóttur fáum
árum síðar. Viðloðandi heimilið var svo lengstum móðir Borgesar
eldri sem var ensk eins og áður er getið um, var nýflutt til Argent-
ínu þegar hún kynntist barnsföður sínum og spænskan varð henni
aldrei sérlega töm; fyrir vikið var enska mikið töluð á æskuheim-
ili Borgesar, útaf þessari „english granny“, og vel að merkja var
Borges alltaf kallaður „Georgie" á heimilinu (enska útgáfan af Jor-
ge) og það kölluðu vinir hans og ættingjar hann alla tíð. Það hafði
eflaust mikið að segja fyrir hann sem bókmenntamann og alþjóða-
sinna, sem hann alla tíð var, að hann ólst upp tvítyngdur. Og það
að fjölskyldan áleit sig hálfenska átti líka sinn þátt í því að hann